Marka langtímastefnu í sóttvarnaaðgerðum

Svandís Svavarsdóttir gaf Alþingi munnlega skýrslu af sóttvarnaaðgerðum í dag. …
Svandís Svavarsdóttir gaf Alþingi munnlega skýrslu af sóttvarnaaðgerðum í dag. Með Svandísi á myndinni er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er unnið að því innan ríkisstjórnarinnar og hjá sóttvarnayfirvöldum að marka stefnu til eins langs tíma og við getum,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á þingfundi í dag, þar sem hún veitti Alþingi munnlega skýrslu um sóttvarnaráðstafanir. 

Sagði ráðherra að slíkt muni auðvelda stjórnvöldum að þræða hinn gullna meðalveg og halda faraldrinum í skefjum, en á sama tíma gæta meðalhófs í takmörkunum þannig að þær valdi ekki meira tjóni á samfélaginu en þeim er ætlað að koma í veg fyrir.

Sóttvarnaaðgerðir verða ræddar á Alþingi með reglulegu millibili næstu vikurnar, að því er fram kom í máli Svandísar.

„Ekki séð ástæðu til annars en að fylgja tilmælum sóttvarnalæknis“

Fór heilbrigðisráðherra yfir nauðsyn sóttvarnaaðgerða og taldi meðal annars ólíklegt að hjarðónæmi næðist hér á landi þar sem einungis 2% þjóðarinnar hafa smitast en til að ná slíku þyrftu 40 til 70% að smitast af veirunni.

Kom fram í máli heilbrigðisráðherra að fimm þúsund manns hafi smitast hér á landi.

„Ég hef ekki séð ástæðu til annars en að fylgja tilmælum sóttvarnalæknis í einu og öllu og ríkisstjórnin hefur verið einhuga í þeirri nálgun. Það þýðir þó ekki að ráðum sé fylgt án nauðsynlegrar gagnrýni og umræðu,“ sagði Svandís. Fagnaði hún umræðunni og tók fram að eðlilegt væri að draga nauðsyn aðgerðanna í efa, þar sem slík væri þróunin einnig í nágrannalöndum.

„Í slíkri stöðu er opin umræða mikilvægust og fyrirsjáanleiki aðgerða, sem kallað hefur verið eftir, og ég deili þeirri sýn að fyrirsjáanleiki sé eins mikill og veiran gefur okkur færi á. Að gagnsæi í landinu sé þannig að almenningur skilji hvers vegna ákvarðanir eru teknar og þar getum við örugglega gert enn betur en við gerum núna, þótt við höfum allan tímann lagt áherslu á upplýsingagjöf og umræðu,“ sagði heilbrigðisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka