Yfir eitt þúsund fulltrúar eru skráðir á tveggja daga rafrænan landsfund Samfylkingarinnar sem hefst í dag. Mikil spenna er í kringum kjör varaformanns en Helga Vala Helgadóttir alþingismaður býður sig fram gegn núverandi varaformanni, Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarfulltrúa.
Fundurinn hefst kl. 16 með setningarræðu Loga Einarssonar formanns. Kosningar til forystusveitarinnar hefjast síðdegis og eiga úrslit í kjöri varaformanns að vera ljós fyrir hádegi á morgun.
Fjölmargir hafa lýst stuðningi við frambjóðendurna á facebooksíðum þeirra. Meðal þeirra sem lýsa stuðningi við Heiðu Björgu eru Jóhanna Sigurðardóttir, fv. forsætisráðherra, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, Ellert B. Schram, fv. alþingismaður, Gerður Kristný rithöfundur, Ólína Þorvarðardóttir, fv. þingmaður, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og Rannveig Guðmundsdóttir, fv. ráðherra.
Meðal stuðningsmanna Helgu Völu eru Margrét Frímannsdóttir, fv. þingm., Illugi Jökulsson blaðamaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Jóhann Ársælsson, fv. þingm., Margrét Sverrisdóttir, fv. borgarfulltrúi, Ólafur Darri Ólafsson leikari og Óttarr Proppé, fv. ráðherra.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinu streymi hér að neðan.