Helgi Bjarnason
Hjúkrunarheimilin hafa orðið fyrir ýmsum skakkaföllum og auknum kostnaði í kórónuveirufaraldrinum, bæði í vor og aftur nú í haust. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu áætla að aukakostnaðurinn hafi numið 312 milljónum til loka ágústmánaðar auk 140 milljóna króna tekjutaps. Ríkisvaldið hefur ekki viljað taka þátt í þeim kostnaði þótt það styðji við sínar eigin stofnanir. Þetta gremst forsvarsmönnum hjúkrunarheimila.
Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, segir að vegna sóttvarna og veirusmita sé færra fólk tekið inn og það þýði minni tekjur. Hins vegar aukist kostnaður vegna starfsfólks sem fer í veikindaleyfi eða sóttkví og sóttvarnaráðstafana svo sem þrifa og sótthreinsunar.
Gísli Páll segir grátlegt að segja frá því að fjármunirnir séu til hjá Sjúkratryggingum. Gert hafi verið ráð fyrir því í fjárlögum að greidd yrðu daggjöld fyrir notkun þessara plássa en nú vilji ríkið græða á ástandinu. Rökin séu þau að heimilin geti hugsanlega unnið þetta upp á seinni hluta ársins en það gerist ekki í þriðju bylgju faraldursins, eins og allir eigi að átta sig á.
Smit hafa komið inn á fjögur hjúkrunarheimili í þriðju bylgju faraldursins en aðeins eitt í vor. Þess vegna má búast við að kostnaðurinn verði meiri í vetur en hann var á fyrri hluta ársins.
Nánar má lesa um þetta mál hér.