Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt tilmæli ráðherraráðs Evrópusambandsins um breytingar á Schengen-regluverkinu. Markmið tilmælanna er að samræma aðgerðir vegna takmarkana á landamærum vegna Covid-19-faraldursins.
Ráðherraráðið samþykkti um miðjan október tilmæli um samræmda nálgun á ferðatakmörkunum á faraldurstímum. „30. október samþykktu aðildarríkin að þessi tilmæli væru einnig með í þróun Schengen-regluverksins,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.
Takmarkanirnar snúa að stöðu Covid-19-faraldursins í hverju landi fyrir sig. Settir verða upp samræmdir litakóðar sem eiga að gefa til kynna stöðu faraldursins í hverju landi fyrir sig. Munu ferðatakmarkanir taka tillit til þess hver staðan er hverju sinni.
Kveðið er á um tiltekin lykilviðmið þegar ákvörðun er tekin um að hefta frjálsa för vegna COVID-19-faraldursins, og eru þau eftirtalin:
„Mælikvarðarnir hafa til þessa ekki verið samræmdir. Þannig geta ferðamenn úr einu landi verið skilgreindir rauðir af sumum stjórnvöldum en ekki af öðrum. ESB er að reyna að samræma þessi viðmið,“ segir Áslaug Arna.
Til áréttingar er hér ekki um lagalega bindandi reglur að ræða, heldur tilmæli til ríkjanna. Eins og sakir standa myndu flest lönd Evrópu skilgreinast sem rauð.
Fram kom í viðtali Þórólfs Guðnasonar við RÚV í dag að hann hyggist í minnisblaði leggja það til að allir sem koma inn í landið fari í skimun í stað þess að fólk hafi val um að fara í 14 daga sóttkví. Til þessa hefur fólk haft val um að fara í skimun og sóttkví í fimm daga áður en það er skimað aftur eða að fara í 14 daga sóttkví.
„Staðan er þannig að það eru örfáir að velja sóttkvína og það er mitt mat að það verði að vera val. Síðan er markmiðið að lyfta þessum takmörkunum í takti við þau áform um að reyna að lifa með veirunni. Ég tel ekki þörf á að setja enn frekari takmörk á landamæri, heldur snýst vinnan núna um að leita leiða til að stuðla að frjálsri för fólks, t.d. með því að viðurkenna vottorð frá öðrum löndum um neikvætt Covid-próf,“ segir Áslaug.