Kviknaði í bíl eftir bílveltu í Hörgárdal

Bíllinn varð alelda eftir veltuna.
Bíllinn varð alelda eftir veltuna. mbl.is/Þorgeir

Bíll fór út af veginum við bæinn Ytri-Bægisá í Hörgárdal núna á þriðja tímanum í dag. Bílnum var ekið í norðurátt þegar hann fór út af veginum og valt inn á nærliggjandi tún. Þar kviknaði í bílnum.

Tveir voru í bílnum og þegar blaðamann mbl.is bar að garði hafði tekist að ná báðum úr bílnum. Voru bæði sjúkrabílar og slökkviliðsbílar á staðnum, en veginum hafði verið lokað. Voru farþegar bílsins fluttir með sjúkrabílum á sjúkrahúsið á Akureyri.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra voru karl og kona í bifreiðinni. Tókst manninum að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum, en konan vankaðist og þurfti að hjálpa henni út. Ekki liggja fyrir upplýsingar um meiðsl þeirra á þessari stundu. Vettvangsrannsókn stendur yfir og má reikna með einhverjum töfum á umferð um veginn meðan á því stendur. Lögreglan stýrir umferð á vettvangi og mun þurfa að stoppa umferðina meðan ákveðnir þættir rannsóknarinnar fara fram. Segir lögreglan að á þessari stundu sé því ekki hægt að segja neitt til um orsakir slyssins en rétt er að fram komi að ekki er hálka á vettvangi.

Uppfært: Upphaflega kom fram að bíllinn hefði oltið við bæinn Syðri-Bægisá í Hörgársveit. Hið rétta er að slysið varð við Ytri-Bægisá.

map.is
map.is map.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert