Logi Már endurkjörinn formaður

Logi Már Einarsson hefur verið endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson hefur verið endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Már Einarsson hefur verið endurkjörinn formaður Samfylkingarinnar með 96,45% atkvæða. Hann var einn í framboði en kjörið fór fram á rafrænum landsfundi flokksins sem var settur í dag.

„Kæru félagar, ég er djúpt snortinn og þakka ykkur innilega fyrir það traust sem þið sýnduð mér í dag. Ég lofa ykkur því að rísa undir þeirri ábyrgð sem mér er falin – að leiða flokkinn inn í mikilvægar kosningar eftir tæpt ár,“ sagði Logi í ræðu eftir að niðurstöðurnar voru ljósar.  

„Lífskúnstnerinn, Vopnfirðingurinn og alþingismaðurinn Jónas Árnason sagði einhverju sinni í texta að lífið væri lotterí og það gilti að taka þátt í því. Á dauða mínum átti ég frekar von fyrir nokkrum árum en að standa hér í dag. En hér er ég og er ótrúlega glaður yfir því að lífið hafið borið mig hingað, kynnt mig fyrir ykkur og í starf fyrir stjórnmálahreyfingu sem ég brenn fyrir,“ bætti hann við.

„En líkt og Siglufjarðar-Geiri í kvæðinu hef bæði ég og flokkurinn sopið ýmsa fjöruna – og eigum eflaust eftir að upplifa ýmislegt enn, en besta ráðið við því er að sýna æðruleysi og kjark. Við erum komin á lappir eftir tímabundna byltu og ætlum okkur enn meira. Í mínum huga er stjórnmálastarf hópvinna þar sem breið ásýnd, vinátta og samheldni flokksfólks helst í hendur við skýra og góða stefnu. Flokkurinn okkar hefur líka á að skipa óvenjumörgum hæfileikaríkum einstaklingum eins og endurspeglast í öllum þeim kosningunum sem fram undan eru. Við skulum öll hafa þetta í huga sama hver niðurstaðan er og sækja saman til sigurs næsta árið,“ sagði Logi í ræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert