Spenna í kringum kosningu varaformanns

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og núverandi varaformaður, og Helga Vala …
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og núverandi varaformaður, og Helga Vala Helgadóttir þingmaður gefa kost á sér til varaformennsku. Ljósmynd/Samsett

Yfir eitt þúsund fulltrúar eru skráðir á tveggja daga rafrænan landsfund Samfylkingarinnar sem hefst í dag. Mikil spenna er í kringum kjör varaformanns en Helga Vala Helgadóttir alþingismaður býður sig fram gegn núverandi varaformanni, Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarfulltrúa.

Fundurinn hefst kl. 16 með setningarræðu Loga Einarssonar formanns. Kosningar til forystusveitarinnar hefjast síðdegis og eiga úrslit í kjöri varaformanns að vera ljós fyrir hádegi á morgun.

„Aðalatriðið er að efla innra starfið í Samfylkingunni. Það verkefni er á borði varaformanns og þar hef ég mjög mikinn metnað. Ég tel að það skipti sköpum fyrir gengi flokksins í þing- og sveitarstjórnarkosningum að innra starfið verði eflt og að við göngum í það með kröftugum hætti. Ég hef sett plan um hvernig ég vil gera það ef ég verð fyrir valinu. Stóra markmiðið er svo að Samfylkingin vinni stóran sigur í næstu þingkosningum,“ segir Helga Vala.

Hún segir tilgang framboðsins að gefa flokksfólki val og markmiðið sé ekki að vinna að stefnubreytingu því það sé grasrótin í flokknum sem móti stefnu Samfylkingarinnar og þeir sem veljast til forystu séu málsvarar þeirrar stefnu.

Heiða Björg segist hafa sem varaformaður tekið þátt í að byggja flokkinn upp á ný með öðrum í forystunni að undanförnu og hún vilji fá tækifæri til að halda því góða starfi áfram. „Mér finnst mikilvægt að það sé breidd í forystu Samfylkingarinnar, að þar sé ólíkt fólk sem starfar á mismunandi vettvangi að sama markmiði, þannig að við getum nálgast málin út frá mismunandi sjónarhornum og með mismunandi reynslu og áherslur. Þar hefur tekist vel til hjá mér og Loga, þar sem við erum ólíkir einstaklingar og störfum hvort á sínum vettvanginum. Mér hefur fundist það mikilvægt og það hefur gefið góða raun að við getum starfað þar saman og náð með því meiri heildarsýn,“ segir hún.

Þær taka ekki undir að kosningabaráttan sé til marks um átök milli fylkinga eða arma. Heiða Björg segir að á síðustu árum sem hún hefur starfað í forystunni hafi hún ekki orðið vör við þá arma eða fylkingar sem talað hafi verið um að væru í Samfylkingunni. „Ég mun vanda mig við að ýta ekki undir að neitt slíkt verði til,“ segir Heiða Björg.

„Ég tel að framboð mitt hafi hleypt ákveðnu lífi í flokkinn og það má m.a. sjá af þeim fjölda framboða sem hafa komið fram að undanförnu,“ segir Helga Vala. „Það hefur ekki verið jafn mikill áhugi á landsfundi lengi. Formaðurinn okkar er mjög vinsæll og það hefur töluvert að segja um árangurinn. Hann eykur gleðina í kringum sig og ég held að það hafi mjög mikil áhrif á þá stemningu sem er núna í aðdraganda landsfundarins,“ segir hún.

Fjölmargir hafa lýst stuðningi við frambjóðendurna á facebooksíðum þeirra. Meðal þeirra sem lýsa stuðningi við Heiðu Björgu eru Jóhanna Sigurðardóttir fv. forsætisráðherra, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, Ellert B. Schram fv. alþingismaður, Gerður Kristný rithöfundur, Ólína Þorvarðardóttir fv. þingmaður, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og Rannveig Guðmundsdóttir fv. ráðherra.

Meðal stuðningsmanna Helgu Völu eru Margrét Frímannsdóttir fv. þingm., Illugi Jökulsson blaðamaður, Andri Snær Magnason rithöfundur, Jóhann Ársælsson fv. þingm., Margrét Sverrisdóttir fv. borgarfulltrúi, Ólafur Darri Ólafsson leikari og Óttarr Proppé fv. ráðherra. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert