Verkfall gæti haft áhrif á björgunargetu LHG

Verkfallið skerðir björgunarhæfni Landhelgisgæslunnar.
Verkfallið skerðir björgunarhæfni Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Flugvirkjar hjá Landhelgisgæslu Íslands lögðu niður störf um miðnætti í gær og hefur kjaradeilu þeirra verið vísað til ríkissáttasemjara.

Verkfallið hefur þær afleiðingar að þyrlur á vegum LHG gætu orðið óútkallshæfar ef verkfallið dregst á langinn, að því er Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir í samtali við mbl.is.

Á þann hátt getur verkfallið haft áhrif á björgunargetu Landhelgisgæslunnar, standi það yfir næstu tvo til þrjá daga, þar sem þyrlurnar þarfnast reglulegs viðhalds.

FVFÍ, Flugvirkjafélag Íslands, boðaði vinnustöðvun félagsmanna sem starfa hjá Landhelgisgæslu Íslands, sem hófst á miðnætti í gær. Alls voru 18 flugvirkjar á kjörskrá og tóku 16 þátt í atkvæðagreiðslu. Kusu 14 (87,5%) með verkfallinu, tveir (12,5%) tóku ekki afstöðu.

Verkfallið nær til allra verka sem flugvirkjar Landhelgisgæslu Íslands sinna á vegum Landhelgisgæslunnar, að undanskildum lögboðnum löggæslu- og björgunarflugsverkefnum sem unnin eru á grundvelli laga nr 52/2006 um Landhelgisgæslu Íslands en áðurboðuðu verkfalli sem átti að hefjast 28. október var aflýst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka