Heiða Björg Hilmisdóttir var í dag endurkjörin varaformaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins. Hún segist þakklát og hrærð yfir því góða fylgi sem hún fékk í dag.
„Ég held það séu bjartir tímar fram undan hjá okkur og finn góða strauma hér á fundinum í dag,“ segir Heiða í viðtali við mbl.is.
Heiða heldur áfram að starfa við hlið Loga Einarssonar en hann var endurkjörinn formaður flokksins í gær. „Ég er spennt og glöð að fá tækifæri til þess. Logi er frábær formaður og við erum í óðaönn að móta stefnu með félögum okkar um land allt,“ segir Heiða.
Á næsta ári verður kosið til Alþingis og segir Heiða að flokkurinn stefni að sjálfsögðu á að komast í ríkisstjórn. Hennar helsta baráttumál þessa stundina er að vinna bug á atvinnuleysi.
„Það sem er mér efst í huga núna er þetta atvinnuleysi og þessi ójafnaðarkreppa sem við erum stödd í. Það er mjög mikilvægt að við sköpum störf og gefum fólki tækifæri til að láta til sín taka. Við gerum það með því að hafa þessar grænu áherslur, þannig að við séum að skapa störf sem fleyta okkur lengra inn í þessa grænu sjálfbæru framtíð, sem verðum að stefna á,“ segir Heiða.