Farskjóta stolið frá frægum hjólamanni

Árni Bergmann
Árni Bergmann

„Þetta er illa gert gömlum manni,“ segir Árni Bergmann, rithöfundur og fv. ritstjóri Þjóðviljans. Um vika er síðan Árni varð þess var að reiðhjól hans var horfið frá Hulduhólum í Mosfellsbæ, hvar hans annað heimili er.

Þetta er um margt kyndugt; líkt því að handbolta væri stolið frá Guðjóni Val Sigurðssyni! Árni hefur í áratugi farið flestra sinna ferða á reiðhjóli og aldrei tekið bílpróf. Er í raun merkisberi samgöngumáta sem æ fleiri tileinka sér.

„Stýrið er ryðgað,“ segir Árni um hjólið góða sem hann væntir þess að endurheimta. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lét fyrr í vikunni þau boð út ganga að verið væri að koma í réttar hendur munum sem lagt var hald á við húsleit í Mosfellsbæ. „Ég þarf að komast í samband við lögregluna og athuga hvort hjólið leynist þar.“

Sitt fyrsta reiðhjól eignaðist Árni tólf ára í Keflavík. Þegar hann kom heim frá námi í Rússlandi 25 ára gamall byrjaði hann aftur að hjóla. Hefur síðan þá – í 60 ár – notað reiðhjólið til þess að komast milli staða og oft haft vindinn í fangið, í tvöfaldri merkingu. „Ég þakka hjólreiðunum það að vera enn við ágæta heilsu, 85 ára gamall,“ segir Árni. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert