Stjórnvöld kanna nú sérstakar skattaívilnanir, sem hvetji til „grænna“ fjárfestinga og í hátækni og nýsköpun. Þetta kemur fram í grein, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar í Morgunblaðið í dag.
Hún telur að ef vel takist til geti sá erfiði kafli, sem þjóðin gengur nú í gegnum, orðið til umbreytinga og tækniþróunar, sem auki verðmætasköpun og verji náttúruna.
Í samtali við Morgunblaðið vildi Katrín ekki tímasetja hvenær af slíkum skattaívilnunum geti orðið. „Það sem ég get sagt, er að við erum að vinna að þessum tillögum, sem miða að því að auka og efla einkafjárfestingu í þágu atvinnuveganna,“ segir Katrín.
Katrín telur að með því móti megi taka stærri skref til að ná árangri í loftslagsmálum og tryggja að tæknibreytingar auki í senn velsæld og verðmætasköpun. Fólk megi ekki gleyma að hagkerfið, sem komi út úr kórónukreppunni, verði ekki nákvæmlega eins og hagkerfið sem fór inn í kreppuna.