Fullkominn staður fyrir hrylling

„Glæpurinn verður meira áberandi á góðum stað en slæmum,“ segir …
„Glæpurinn verður meira áberandi á góðum stað en slæmum,“ segir Yrsa sem kölluð hefur verið glæpadrottning Íslands. Hún gefur út glæpasögu og barnabók um þessar mundir. mbl.is/Ásdís

Hún er kölluð glæpadrottningin en það er ekkert myrkt við Yrsu Sigurðardóttur þar sem hún opnar dyrnar brosandi og býður í bæinn á fallegu heimili sínu á Seltjarnarnesi. Hún skenkir kaffi í bolla og á borðinu liggur glænýtt eintak af bókinni hennar Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin. Blaðamaður hafði gluggað í þá bók og leist vel á, en aðalpersónan er köttur. Það er ekki að spyrja að því þegar tvær kattarkonur koma saman; fyrsta kortérið fer í að ræða ketti og þeirra margbrotnu persónuleika.

Við snúum okkur svo að bókum Yrsu, en þær eru ófáar á löngum og farsælum ferli.
Sautján ár eru liðin frá því Yrsa skrifaði síðast barnabók og sneri sér að glæpasögum. Bráðin er sextánda bókin í röð ætluð fullorðnum. Nú hefur hún bætt um betur og skrifað ekki eina, heldur tvær bækur; eina fyrir börn og aðra mun óhugnanlegri fyrir fullorðna. Yrsa viðurkennir að hún hafi verið á haus undanfarna mánuði að klára þessar tvær skáldsögur. Það er ekki að sjá á henni; hún er yfirveguð og slök.

Ástardrama og hryllingsmyndir

Yrsa segir að skapandi skrif hafi ekkert endilega verið í forgangi á hennar yngri árum, en þó hafi hún og vinkona hennar skrifað bók í menntaskóla.
„Okkur leiddist í tíma og við skrifuðum saman rosalegt ástardrama. Það væri ekki birtingarhæft,“ segir Yrsa og hlær.

„Ég fann hana um daginn og hún er mjög fyndin,“ segir hún og brosir.
 „En ég var aðallega bara að lesa sjálf sem barn og unglingur. Sem barn las ég mikið um börn sem leystu glæpi og svo var alltaf eitthvað sem heillaði við hið óhugnanlega. Draugasögur og ráðgátur voru í uppáhaldi en ég las allt; líka bækur frá pabba og mömmu. Svo fór ég að lesa Agöthu Christie og dáðist mikið að henni og svo var það Stephen King,“ segir hún.

Yrsa viðurkennir að hún hafi einnig verið með nefið ofan í læknisfræðibókum föður síns, aðallega til að skoða ógeðfelldar myndir af fólki sem þjáðist af ýmsum smitsjúkdómum.
„Mér hefur alltaf þótt óhugnaður áhugaverður. Það kom ekkert slæmt fyrir mig í æsku en þessi læknabók um smitsjúkdóma er klárlega rótin að þessu,“ segir hún og hlær.

Ekki gera þig að fífli

Alveg síðan 2005 hefur Yrsa verið iðin við glæpasöguskriftirnar. Bækur hennar hafa verið þýddar á fleiri tungumál en hún getur talið.

„Þegar ég skrifaði síðustu barnabókina árið 2003 fannst mér þetta bara orðið gott og ætlaði ekkert að skrifa aftur,“ segir Yrsa.

Yrsa á mikið safn af hryllingsmyndum og setur þær á …
Yrsa á mikið safn af hryllingsmyndum og setur þær á til að skapa stemningu á meðan hún skrifar. mbl.is/Ásdís

Hvað var þá kveikjan að glæpaskrifunum?

„Áður en Arnaldur sló í gegn held ég að hvorki útgefendur né lesendur hafi þá verið búnir að átta sig á að það væri hægt að skrifa góða glæpasögu sem gerist á Íslandi. En honum tókst að sýna fram á það svo um munaði og gott betur en það. Þá opnaðist þessi möguleiki að skrifa glæpasögu. Ég hafði eitt sinn byrjað á glæpasögu en vinkona mín sem var í útgáfubransanum sagði þá við mig; „Ekki gera þig að fífli að reyna að skrifa íslenska glæpasögu, þú getur gleymt því.“ Við höfum oft hlegið að þessu síðan,“ segir hún og brosir.

Séð með augum kattarins

En hvað kom til að þú ákvaðst að skrifa aftur barnabók eftir svona langt hlé, og leggja það á þig þá að skrifa tvær bækur á einu ári?

„Þetta er búið að standa til í tíu ár, að skrifa tvær bækur á einu ári. Það kom þannig til að einhver karlugla sagði mér eitt sinn að ég ætti ekki að skrifa eina bók á ári, heldur ætti ég að taka tvö ár í eina bók eins og margir aðrir rithöfundar. Hann var varla búinn að sleppa orðinu þegar ég ákvað að ég ætlaði að gefa út tvær bækur á einu ári. En það tók mig tíu ár að koma mér í það. En ég ætla að gera það sama á næsta ári því mér fannst virkilega gaman að skrifa barnabók aftur,“ segir Yrsa.

„Sérstaklega þótti mér gaman að fá tækifæri til að vinna bókina með dóttur minni Kristínu Sól en hún teiknaði myndirnar, sem ég gæti ekki verið ánægðari með. Hún er hátækniverkfræðingur í framhaldsnámi í róbótum og gervigreind en býr yfir þessum leynda hæfileika sem ég nýtti mér. Það samstarf var yndislegt,“ segir hún.

Á mikið safn af hryllingsmyndum

Blaðamanni verður á orði að það hljóti að vera fleiri tímar í sólarhringnum hjá Yrsu en öðrum. 
 „Þetta var erfiðara þegar börnin voru lítil. Nú er þetta bara spurning um að nýta frítímann í að skrifa, frekar en til dæmis að horfa á sjónvarpið; þá er þetta ekkert flókið. Ég get skrifað nánast hvar sem er. Það er ekkert sem truflar mig, jafnvel ekki þótt einhver á heimilinu sé að horfa á eitthvað í sjónvarpinu eða stilli útvarpið hátt,“ segir Yrsa og segist jafnvel nota bíómyndir sem stemningu við skriftirnar.

„Ég á mikið safn af hryllingsmyndum og set þær gjarnan á þegar ég skrifa. Sixth sense er í uppáhaldi þegar kemur að sögufléttunni og svo held ég upp á margar fleiri sem eru mun óhugnanlegri. Ég nota þær til að skapa andrúmsloft. Ég er ekkert að horfa, heldur hlusta á tónlistina og hljóðin. Af og til kemur öskur. Það hentar mjög vel til að búa til stemningu.“

Hvernig koma hugmyndir til þín?

„Það er bara misjafnt. Það var til dæmis vinnufélagi sem benti mér á að Stokksnes væri fullkominn staður fyrir einhvern hrylling. Svo sækir Bráðin einnig innblástur til óleystrar ráðgátu frá gömlu Sovétríkjunum sem kallast Dyatlov Pass Incident. Sá atburður varð átta jarðfræðinemum og kennara þeirra að bana en þau yfirgáfu tjöld sín nánast klæðalaus um miðja nótt að vetri til í Úralfjöllunum, án þess að það hafi nokkru sinni fundist skýring á því hvað þeim gekk til. Það er oft eitthvert lítið fræ sem setur hugmynd af stað; það getur verið staður, frétt eða einhver karakter. Svo þarf að byggja ofan á fræ þar til maður er kominn með kjöt á beinin.“  

Glæpadrottningin Yrsa segir að norræna glæpasagan sé komin til að …
Glæpadrottningin Yrsa segir að norræna glæpasagan sé komin til að vera. mbl.is/Ásdís

Glæpur á góðum stað

Norræna glæpasagan, er hún að slá í gegn?

 „Já, hún er orðin fastur liður og komin til að vera. Ekki bara tískubóla. Stig Larsson var sá sem stimplaði norrænu glæpasöguna endanlega inn, þótt aðrir hefðu komið á undan. Og svo kom Arnaldur. Hann hefur slegið í gegn á heimsvísu og erlend velgengni Ragnars undanfarið er alveg mögnuð. Það er svo gaman að sjá þegar vel gengur hjá þeim sem eiga það skilið.“ 
Hún er hógvær og gleymir sjálfri sér, en eins og alþjóð veit hefur hún einnig slegið í gegn á erlendri grundu.

„Við íslensku glæpahöfundarnir erum öll að skrifa með okkar eigin rödd. Það myndi enginn ruglast á bók eftir okkur; við erum öll með okkar sérstaka stíl og það er enginn að herma eftir öðrum. En við eigum það sameiginlegt, og það gildir um glæpasagnahöfunda frá hinum Norðurlandaþjóðunum líka, að við erum að skrifa frá löndum sem eru þekkt fyrir gott og sterkt félagslegt kerfi. Þar sem hlutir eiga að vera í eins góðu lagi og þekkist, varðandi mannréttindi og kvenréttindi til dæmis. Þá er voða gaman fyrir þá sem búa ekki þar að lesa um eitthvað hræðilegt sem gerist á góðum stað. Það er allt annað en að lesa til að mynda um eitthvað hræðilegt sem gerist í stríðshrjáðu landi, þar sem eru svo miklar hörmungar. Glæpurinn verður meira áberandi á góðum stað en slæmum.“ 

Ítarlegt viðtal er við Yrsu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 






Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert