Óvenjuleg skjálftahrina við Hrísey

Um 30 skjálftar mældust um 1 kílómetra norðan við Hrísey …
Um 30 skjálftar mældust um 1 kílómetra norðan við Hrísey á dögunum 31. október til 4. nóvember.

Veðurstofa Íslands greindi stutta en óvenjulega jarðskjálftahrinu um einn kílómetra norðan við Hrísey nýlega. Hrinan hófst 31. október og lauk 4. nóvember en alls mældust 30 skjálftar á þessu tímabili. Frá þessu er greint á vef Veðurstofunnar.

Skjálftarnir voru allir litlir eða innan við 1,5 að stærð og flestir innan við 1 að stærð. Fólk verður alla jafna ekki vart við skjálfta af þessari stærð. Hrinan vakti athygli vísindamanna hjá Veðurstofunni vegna þess hve óvanalegt er að svo margir skjálftar mælist á þessum slóðum.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að skjálftavirkni við Hrísey sé ekki algeng en það séu þó dæmi um virkni á þessu svæði. Hinn 2. júní árið 1934 varð svokallaður Dalvíkurskjálfti og talið er að hann hafi átt upptök sín einmitt á þessu svæði í kringum Hrísey. Skjálftinn var á bilinu 6,2-6,3 að stærð og fannst á öllu Norðurlandi.

Upptök skjálftanna sem mældust nú um mánaðamótin voru við nánari athugun á mjög afmörkuðu svæði og á 2-4 kílómetra dýpi, sem þykir ekki mjög djúpt. Til samanburðar hafa skjálftar sem tilheyra hrinunni á Tjörnesbrotabeltinu mælst á 10 kílómetra dýpi.

Miklar jarðskorpuhreyfingar hafa verið úti fyrir mynni Eyjafjarðar og á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðna mánuði. Almannavarnir lýstu yfir óvissuástandi þegar öflug hrina hófst í Eyjafjarðarálnum í lok júní og síðan hefur sérstaklega verið fylgst með svæðinu. Óvenju mikil jarðskjálftavirkni hefur verið fyrir norðan síðan í sumar.

Á vef Veðurstofunnar segir að ekki sé óhugsandi að skjálftarnir tengist þessum óróleika en líklegra þykir miðað við staðsetningu og dýpi skjálftanna að þeir tengist jarðhitavirkni sem finnst víða í Eyjafirðinum. Náttúruváreftirlit Veðurstofunnar fylgist áfram vel með svæðinu í samvinnu við félaga á Jarðvísindastofnun, ÍSOR og almannavarnadeild lögreglunnar. 

Kortið sýnir jarðskjálftana norðan við Hrísey sem urðu í hrinunni.
Kortið sýnir jarðskjálftana norðan við Hrísey sem urðu í hrinunni. Ljósmynd/Veðurstofan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert