Virðast mjög mót­tæki­leg­ir og smita auðveldlega

Minkar virðast smitast auðveldlega.
Minkar virðast smitast auðveldlega. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Dr. Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og veirufræðingur á rannsóknarstöðinni á Keldum, segir að breytingar á kórónuveirunni hafi greinst áður í minkum í Danmörku á þessu ári. Það hafi þó ekki verið fyrr en vísindamenn sáu þessa stökkbreytingu að ákveðið var að slátra öllum minkum í landinu.

Vilhjálmur segir að það séu misjafnar skoðanir innan vísindasamfélagsins um hversu mikil áhrif þessi stökkbreytta veira gæti haft. Ekki sé búið að gefa út neinar tölulegar upplýsingar um hana.

Í gær var tilkynnt að öllum minkum í Danmörku yrði slátrað eftir að þessi stökkbreyting greindist. Að sögn AFP-fréttastofunnar hafa að minnsta kosti 12 manns smitast af þessu afbrigði veirunnar. Alls hafa sex ríki í heiminum greint Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, frá því að minkar hafi smitast hjá þeim; Ítalía, Holland, Spánn, Svíþjóð og Bandaríkin auk Danmerkur. 

Stökkbreytingin felur í sér breytingu á yfirborðsprótíni í veirunni. Mótefni sem myndast hjá fólki virðist ekki hafa fullkomna afvirkjandi virkni á þetta afbrigði veirunnar. „Þá myndu þau bóluefni sem eru í þróun og framleiðslu mögulega ekki virka jafn vel á veiruna,“ segir Vilhjálmur. 

Minkar virðast verða mjög móttækilegir fyrir veirunni og smita auðveldlega sín á milli.

Matvælastofnun gaf það út í vikunni að skimað yrði fyrir kórónuveirunni á minkabúum hérlendis á næstu dögum. Í tilkynningu frá stofnuninni kemur fram að talið sé að litlar líkur séu á því að minkar hérlendis séu smitaðir.

Vilhjálmur segir mikilvægt að taka stöðuna núna og halda áfram að fylgjast með á meðan heimsfaraldurinn geisar. „Sá möguleiki er fyrir hendi ef smitandi einstaklingur fer inn á minkabú að hann beri smit í mink. Komin í mink getur veiran auðveldlega náð að dreifa sér um búið,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert