Eina útkallshæfa þyrlan ekkert kölluð út um helgina

TF-GRÓ er um þessar mundir eina útkallshæfa þyrla Landhelgisgæslunnar. Verkfall …
TF-GRÓ er um þessar mundir eina útkallshæfa þyrla Landhelgisgæslunnar. Verkfall flugvirkja gæslunnar veldur því að notkun hennar er takmörkuð til að halda útkallshæfi hennar sem lengst. mbl.is/Þorgeir

Um þessar mundir er aðeins ein þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ, útkallshæf vegna reglubundinnar skoðunar á TF-EIR. Í síðustu viku hófu flugvirkjar Landhelgisgæslunnar ótímabundið verkfall og gæti því komið til þess að engin þyrla gæslunnar yrði útkallshæf þegar komið er að yfirferð á TF-GRÓ, en slíkar yfirferðir þarf að gera eftir ákveðinn tíma flugstunda.

Vegna þessarar stöðu var TF-GRÓ er notkun þyrlunnar takmörkuð og var aðeins notuð einu sinni á laugardaginn á æfingu með gæslunni, en ekkert laugardag né sunnudag í útköll. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Ásgeir staðfestir að staðan með samningaviðræður við flugvirkja sé óbreytt frá því fyrir helgi, en samkvæmt heimildum mbl.is var ekkert fundað um helgina.

Spurður út í hversu langt sé í næstu yfirferð á TF-GRÓ segist Ásgeir ekki hafa þær upplýsingar á hreinu, en að um þessar mundir sé tekið tillit af stöðu mála við ákvörðun um æfingar og notkun þyrlunnar. „Það er erfitt að segja hvenær þetta fer að hafa áhrif,“ segir hann.

Ásgeir segir að allt viðbragð gæslunnar gangi út á að halda þyrlubjörgunarþjónustunni gangandi og að þyrlur séu til staðar. Spurður hvað verði gert ef komið sé að yfirferð hjá TF-GRÓ segir Ásgeir: „Við munum leita allra leiða til að tryggja að við höfum þyrlu í rekstri.“

Auk TF-GRÓ og TF-EIR á Landhelgisgæslan einnig þyrluna TF-LÍF, en hún er í langtímaviðhaldi, auk þess sem ákveðið hefur verið að selja hana. Hefur hún því ekkert verið í notkun á þessu ári.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að þyrlan hefði ekkert verið notuð um helgina samkvæmt svörum frá Landhelgisgæslunni. Þyrlan var hins vegar notuð í stutta æfingu á laugardagskvöldið, en aldrei send í útkall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert