Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi mann nýverið til 60 daga fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot. Maðurinn særði blygðunarkennd stúlku sem afgreiddi hann á sólbaðsstofu með því að fróa sér fyrir framan hana eftir að ljósatíma hans var lokið. Brotið átti sér stað í júlí árið 2019 og var ákært í málinu 6. október síðastliðinn. Dómurinn féll 30. október en var birtur á vef dómstólsins í dag.
Maðurinn bar það fyrir sig að hann væri með húðsjúkdóm sem hann héldi í skefjum með reglulegum ljósabekkjatímum. Hann hafi því verið „sveittur og klístraður“ og þess vegna hagrætt pungnum á sér fyrir utan ljósabekkjastofuna. Ætlunin hafi ekki verið að særa blygðunarkennd neins.
Stúlkan segir að áfengislykt hafi verið af manninum þegar hann kom fyrst inn á sólbaðsstofuna en að hann hafi verið sérstaklega kurteis við sig, svo hún taldi ekki ástæðu til að óttast manninn.
Maðurinn hóf þó ekki athæfi sitt fyrr en eftir ljósatímann, þegar hann stóð fyrir utan glugga sólbaðsstofunnar við hliðina á afgreiðsluborðinu og horfði beint á afgreiðslustúlkuna á meðan hann handlék kynfæri sín.
Stúlkan sagðist fyrst hafa haldið að maðurinn væri að klóra sér en svo hafi henni orðið ljóst af handahreyfingum mannsins að hann væri að fróa sér. Þegar hann svo beraði á sér getnaðarliminn hringdi stúlkan á lögregluna. Stúlkunni fannst hafa verið brotið á sér og sagðist hafa verið hvað hræddust við að maðurinn kæmi aftur inn.
Maðurinn var dæmdur í 60 daga fangelsi eins og fyrr segir, en sá dómur skal þó með öllu niður falla þegar tvö ár eru liðin frá dómsuppkvaðningu, haldi hann skilorð. Manninum var skipaður lögmaður og var honum gert að greiða fyrir störf hans samtals um 607 þúsund krónur og um 39 þúsund krónur í annan sakarkostnað.