Hópsmit á Landakoti tilkynnt sem „alvarlegt atvik“

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Golli

Tíu af þrettán andlátum í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins má rekja til hópsmitsins sem upp kom á Landakotsspítala í október. Hópsmitið verður tilkynnt til Landlæknis sem alvarlegt atvik að sögn forstjóra Landspítalans sem segir að hann geti ekki fullyrt um það eins og er hvort atvikið verði tilkynnt til lögreglunnar, en býst þó við því að svo verði ekki.

Þetta sagði hann við fréttastofu RÚV í kvöldfréttum.

Alma D. Möller landlæknir gerir ráð fyrir að fá formlega og skriflega tilkynningu frá Landspítalanum um hópsýkinguna á Landakoti sem alvarlegt atvik, í samræmi við lög um Landlækni.

„Það er atvik sem er alvarlegt og hefði getað valdið tjóni eða hefur valdið sjúklingum tjóni – og það á augljóslega við í þessu tilfelli,“ sagði Alma í samtali við fréttastofu RÚV.

Um skaða að ræða vegna Landakots

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að nú þegar hafi atvikið verið tilkynnt munnlega.

„Við höfum þegar tilkynnt þetta samkvæmt 9. og 10. grein laga um landlækni og samkvæmt orðanna hljóðan er þarna um alvarlegt atvik að ræða,“ sagði Páll í kvöldfréttum.

„Samkvæmt lögum um landlækni er atvik alvarlegt ef skaði er yfirvofandi eða skaði varð í raun og veru og þarna var um skaða að ræða.“

Hann segir atvikið hafa verið tilkynnt munnlega um leið og það gerðist en ekki hafi verið tilkynnt um það formlega vegna flækjustigs. Svona tilkynningar þurfi að vinna vel og ítarlega. 

Óvissa um kæru til lögreglu

Í lögum um landlækni segir að tilkynna beri óvænt dauðsföll, bæði til landlæknis og lögreglu, þegar grunur leikur á að um mistök eða óhapp við meðferð eða óhappa við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms.

Er þetta mál þess eðlis að það sé líklegt að það verði tilkynnt til lögreglu?
„Ég treysti mér ekki til að svara því á þessari stundu,“ hefur RÚV eftir Ölmu Möller.

„Ég á ekki von á því en ætla ekki að fullyrða neitt um það fyrr en ég hef séð niðurstöðu þeirrar athugunar sem liggur fyrir í þessari viku,“ var svar Páls Matthíassonar við sömu spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert