Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ, er enn útkallshæf að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Í síðustu viku hófu flugvirkjar Landhelgisgæslunnar ótímabundið verkfall og gæti því komið til þess að engin þyrla gæslunnar yrði útkallshæf þegar komið er að yfirferð á TF-GRÓ, en slíkar yfirferðir þarf að gera eftir ákveðinn tíma flugstunda. Vélin var notuð einu sinni á laugardag á æfingu og aftur á mánudag.
„Þyrlan er enn í fullri virkni en að öðru leyti hefur ekkert breyst hvað það varðar í dag. Það fór fram æfing núna í kvöld svo vélinni var eitthvað flogið. Það verða einhverjar æfingar í vikunni en þeim verður fækkað vegna þessa ástands með það að markmiði að tryggja að hægt verði að halda þyrlunni eins lengi og kostur er í gangi,“ sagði Ásgeir í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
Ásgeir segist ekki hafa fréttir að færa um stöðu samningaviðræðna. Spurður út í hversu langt sé í næstu yfirferð á TF-GRÓ segir Ásgeir: „Það er erfitt að segja til um það, þannig að það er í rauninni ófyrirséð hversu lengi við náum að halda henni í gangi. En það er ljóst að dragist verkfallið á langinn mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir björgunargetuna, en nákvæm tímasetning er óljós. Við munum skoða alla kosti þegar kemur að þeirri stöðu, það verða allir kostir skoðaðir.“