Faraldrinum geti lokið með réttu bóluefni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ánægjulegt að þrátt fyrir aukinn fjölda sýna hafi ekki greinst aukinn fjöldi kórónuveirusmita í gær. Hann fagnar þróuninni en fáir hafa greinst smitaðir innanlands á síðustu dögum, nú einungis 11 í gær. Þórólfur segir fréttir af bóluefnaframleiðslu Pfizer og BioNTech ánægjulegar og vita á gott, væntanlega sé hægt að ljúka faraldrinum með tilkomu rétta bóluefnisins.

Er þetta allt að þokast í rétta átt, hvað varðar smit? 

„Já. Þetta er bara svona svipuð þróun og hefur verið. Það er ánægjulegt að það var tekið miklu meira af sýnum í gær en um helgina og það er ánægjulegt að sjá ekki mikla aukningu með aukinni sýnatöku þannig að við erum að sjá fram á þessa sömu þróun og við erum búin að sjá undanfarið, auðvitað fagnar maður því bara,“ segir Þórólfur. 

Hann vonar að þróunin haldi áfram. 10 manna samkomubann og frekari takmarkanir tóku gildi fyrir um tíu dögum. 

„Í þessari viku fara síðustu hertu aðgerðir virkilega að skila sér,“ segir Þórólfur um það. 

Einn lést á síðastliðnum sólarhring vegna Covid-19 en sá var á tíræðisaldri. 

Ánægjulegar fréttir af Pfizer og BioNTech

Í gær var greint frá því að nýtt bólu­efni við kór­ónu­veirunni, sem er í sam­eig­in­legri þróun hjá lyfja­fyr­ir­tæk­inu Pfizer og líf­tæknifyr­ir­tæk­inu Bi­oNTech, hefði í 90% til­vika komið í veg fyr­ir Covid-19-smit í þriðja fasa lyfjaþró­un­ar­inn­ar. Spurður um sitt mat á þessum fréttum segir Þórólfur:

„Bóluefnaframleiðandinn hefði náttúrlega ekki komið fram með þessar fréttir nema það sé góður grunnur fyrir þeim. Það er ánægjulegt að þeir séu búnir að rannsaka einhverja 30.000 einstaklinga og útkoman sé þessi. Ég vona að aðrir bóluefnaframleiðendur geti sýnt fram á sömu tölur en lyfjastofnun Evrópu á náttúrlega eftir að fara yfir þetta, leggja blessun sína yfir þetta og gefa eitthvað út um þetta.“

Mun tilkoma bóluefnis breyta öllu? 

„Besta útkoman væri sú að menn framleiði bóluefni sem gangi vel að framleiða, það væri gott bóluefni, 90% virkt að minnsta kosti þ.e.a.s. myndi koma í veg fyrir smit hjá 90% þeirra serm eru bólusettir og ekki hafa í för með sér aukaverkanir. Þannig myndum við væntanlega sjá fram á að við gætum endað þennan faraldur en við verðum líka að vera undir það búin að bóluefnið verði ekki alveg svona gott og eins að það muni jafnvel ekki virka. Þessar fréttir benda þó til þess að svo sé ekki, alla vega hjá þessum framleiðanda, svo það er ánægjulegt,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert