Framkvæma ekki 100 aðgerðir vegna veirunnar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlanir gera ráð fyrir því að Landspítalanum takist ekki að framkvæma 100 liðskiptaaðgerðir sem áætlanir gerðu ráð fyrir á þessu ári vegna kórónuveirufaraldursins. Eftir að valkvæðum aðgerðum var frestað vegna neyðarstigs spítalans hefjast þær aftur á morgun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallaði um neyðarstig spítalans á opnum fjarfundi velferðarnefndar Alþingis og benti þá á að valkvæðar aðgerðir hefjist brátt aftur.

Á vef spítalans kemur fram að þær hefjist á morgun.

Spítalinn verður væntanlega færður af neyðarstigi, sem hann hefur verið á frá 25. október, í vikunni.

Ráðherra sagði að í viðbragðsáætlun almannavarna komi fram að þegar Landspítali fari á neyðarstig þurfi að gera ráðstafanir um varasjúkrahús. Hefði neyðarstigið varað lengur voru staðir eins og Vífilsstaðir nefndir til sögunnar sem varasjúkrahús.

Svandís sagði að margt hefði verið mjög vel gert hér á landi í faraldrinum en ljóst sé að annað hefði mátt vera betur undirbúið.

Nefndi ráðherra í því samhengi mönnunar- og húsnæðisvanda og að það hefði átt að vera búið að byggja nútímalegan spítala fyrir löngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert