Lánasjóðurinn láni hótelkeðjum

Herbergi á Center-hótelinu á Laugavegi 95-99.
Herbergi á Center-hótelinu á Laugavegi 95-99. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar stærstu hótelkeðja landsins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa farið þess á leit við sveitarfélögin að greiðslu fasteignagjalda verði frestað með útgáfu skuldabréfa.

Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir hægt að fara ýmsar leiðir. „Fyrsta krafa okkar var að óska eftir því að fasteignagjöldin yrðu felld niður á tímum veirunnar. Til vara lögðum við fram þá tillögu, af því að við vitum að sveitarfélögin hafa ekki mikið aflögu, að fasteignagjöldunum yrði dreift með löngu skuldabréfi,“ segir Kristófer.

Hugmyndin sé að Lánasjóður sveitarfélaga láni sveitarfélögunum fjárhæð sem samsvarar ógreiddum fasteignagjöldum. Skuldabréf yrði svo gefið út á hvert fyrirtæki í gistiþjónustu með lögveði í þeirri fasteign sem fasteignaskatturinn fylgir. Sú leið kalli á lengingu í lögveði fasteignaskatta með hliðstæðri lagasetningu og gripið var til eftir efnahagshrunið. Þá hafi með lögum 6/2009 verið lengt í lögveðum í fasteign í fjögur ár í stað tveggja fyrir árin 2008-2010.

„Kjörin á skuldabréfunum yrðu að vera mjög hagstæð og spegla vexti Lánasjóðs sveitarfélaga. Þannig yrðu vextirnir í flestum tilvikum vel innan við 1%. Ef sú vaxtaprósenta gengi áfram til okkar félagsmanna yrði þetta viðráðanlegt. Um leið myndi tekjustreymið ekki raskast hjá sveitarfélögum,“ segir Kristófer í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert