Lýstu frelsissviptingum og vanrækslu

Frá Arnarholti.
Frá Arnarholti. mbl.is/Árni Sæberg

Veikt fólk sem dvaldi á vistheimilinu Arnarholti á Kjalarnesi til ársins 1971 var sett í einangrun í litlum fangaklefa vikum saman, eftir því sem fram kemur í vitnaleiðslu yfir starfsfólki sem RÚV greindi ítarlega frá í kvöld. Þar lýsti starfsfólk Arnarholts órannsökuðum andlátum vistmanna og vanrækslu sem leiddi til andláts. 

Arnarholt var fyrst opnað árið 1945 og var rekið af Reykjavíkurborg. Í greinargerð borgarlæknis frá árinu 1971 sem Morgunblaðið greindi frá á sínum tíma kom fram að vistmenn á Arnarholti væru með margvísleg vanheilindi, oftast af geðrænum toga. Vistheimilið sé ekki viðurkennd sjúkrastofnun, en að margir vistmanna hafi þurft mikillar umönnunar og hjúkrunar við, meiri en starfslið og aðstæður leyfðu. 

Árið 1970 fól borgarstjórn heilbrigðismálaráði Reykjavíkur að láta framkvæma athugun á heimilinu. Í febrúar árið eftir skipaði heilbrigðismálaráð síðan nefnd þriggja lækna sem falið var að rannsaka málið. Nefndin yfirheyrði meðal annars 24 aðila, þáverandi og fyrrverandi starfsfólk Arnarholts. Í niðurstöðum nefndarinnar frá því í apríl 1971 sagði að engar sannanir höfðu fengist fyrir ásökunum sem vörðuðu framkomu við vistmenn, meðferð þeirra og aðbúnað. Borgarstjórn ákvað þó að grípa til aðgerða vegna Arnarholts, þvert á niðurstöðu nefndarinnar. 

Fannst látin í flæðarmálinu

Í vitnaleiðslum yfir starfsmönnunum 24 sem nefndin ræddi við og RÚV hefur undir höndum er því meðal annars lýst hvernig vistmönnum var refsað með því að vera neitað um mat. Þá virðist þeim einnig hafa verið refsað með því að vera læstir úti hvernig sem viðraði. Algengast virðist hafa verið að heimilismönnum væri refsað með því að vera settir í steinsteyptan einangrunarklefa með einum litlum glugga sem búið var að setja járnrimla fyrir. 

Þá er því í vitnaleiðslunum lýst hvernig manni sem fékk heilablæðingu um miðja nótt hafi ekki verið veitt aðhlynning fyrr en morguninn eftir og einkennilegri meðferð á líki og slagsmálum starfsmanns og vistmanns einnig lýst. 

Alvarlegustu atvikin sem greint var frá í vitnaleiðslunum varða þó andlát heimilismanna  sem virðast hafa verið nokkuð tíð á þessum tíma og lýsir starfsfólkið nokkrum slíkum tilvikum. Greindu starfsmenn meðal annars frá því að þegar það uppgötvaðist dag einn að kona sem bjó á heimilinu væri týnd og að hennar hafi verið saknað frá deginum áður hafi leit ekki verið hafin, en konan fannst látin í flæðarmálinu stuttu síðar.  

Arnarholt var fært undir geðdeild Borgarspítalans 1. september 1971. Í febrúar 1972 viðurkenndi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið síðan Arnarholt sem hjúkrunarheimili í fyrsta sinn. Arnarholt var stafrækt sem sjúkrastofnun til ársins 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert