„Sjáum ljós við endann á göngunum“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú erum við komin á nýjan stað. Það var nýr kafli sem byrjaði í gær, held ég að ég geti sagt, með því að það bárust fréttir af bóluefni,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á opnum fjarfundi velferðarnefndar Alþingis um neyðarstig Landspítala.

Í gær var greint frá því að nýtt bólu­efni við kór­ónu­veirunni, sem er í sam­eig­in­legri þróun hjá lyfja­fyr­ir­tæk­inu Pfizer og líf­tæknifyr­ir­tæk­inu Bi­oNTech, hafi í 90% til­vika komið í veg fyr­ir Covid-19-smit í þriðja fasa lyfjaþró­un­ar­inn­ar.

„Við sjáum svona ljós við endann á göngunum,“ bætti Svandís við.

Ísland fær aðild að bólu­efna­samn­ing­um Evr­ópu­sam­bands­ins í gegn­um Svíþjóð. Með þeim hætti hef­ur Íslandi verið tryggður ná­kvæm­lega sami aðgang­ur að þeim bólu­efn­um sem fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins sem­ur um og Evr­ópu­sam­bands­rík­in njóta.

Ráðherra sagði að undirbúningur væri hafinn að reglugerð þar sem kveðið er á um forgangsröðun og þá hverjir fengju bóluefni í fyrstu lotu en heilsugæslur muni sjá um bólusetningu.

Svandís sagði enn fremur að íslensk heilbrigðisyfirvöld yrðu tilbúin um leið og hægt væri að fá bóluefni hingað til lands en vonir standa til að það verði í upphafi næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert