Staðinn að verki og reyndi að stinga af

mbl.is/Arnþór Birkisson

Tilkynning barst til lögreglu um fimmleytið í nótt um mann sem hafði gerst fingralangur í Gerðunum í Reykjavík. Maðurinn var hlaupinn uppi af lögreglu og handtekinn eftir að hafa reynt að komast undan á vespu.

Munir fundust í fórum hans sem taldir eru þýfi. Einnig reyndist hann vera undir áhrifum fíkniefna, áfengis og lyfja. Viðkomandi gistir nú fangageymslu þar til rætt verður við hann síðar í dag.

Lögreglan handtók mann í Bökkunum í Breiðholti á stolinni vespu um tvöleytið í nótt og er hann í haldi lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Tveir menn voru síðan handteknir í umferðinni á fjórða tímanum í nótt en sá sem ók var undir áhrifum fíkniefna og farþegi bifreiðarinnar var með fíkniefni á sér. Þeir eru báðir vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins og verða yfirheyrðir síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert