Teikn eru um að sjálfsvígum sé að fjölga

39.is. Taldar eru upp níu aðgerðir til að setja geðheilsu …
39.is. Taldar eru upp níu aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang. Undirskriftasöfnun lauk í fyrravöld og verður listinn afhentur stjórnvöldum. mbl.is/Hallur Már

Alls bárust 30.094 gildar undirskriftir í undirskriftasöfnun á síðunni 39.is sem lauk á sunnudagskvöld. Fólk skrifaði nöfn sín til að hvetja til aðgerða til að setja geðheilsu í forgang.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að undirskriftalistinn verði afhentur stjórnvöldum síðar í vikunni. „Það er gríðarlega góður árangur þegar 12% þjóðarinnar, eldri en 18 ára, skrifa undir áskorunina,“ sagði Grímur. „Við leggjum til níu aðgerðir og höfum birt þær á síðunni 39.is.“ Talan 39 er fjöldi þeirra sem tóku líf sitt hér á landi í fyrra. Grímur segir að því miður sé útlit fyrir að fjöldinn verði talsvert mikið meiri á þesu ári.

„Lögreglan setti fram tölur fyrir lok ágúst og þá var fjöldi sjálfsvíga orðinn 30 en hafði verið 18 á sama tíma í fyrra. Það var greint frá þessu á fundi hjá landlækni en þess ber að geta að þetta eru ekki staðfestar tölur úr dánarmeinaskrá. Þetta kemur heim og saman við það sem við höfum heyrt,“ sagði Grímur. „Erfiðleikarnir vegna faraldursins hafa áhrif á geðheilsu fólks. Við eigum að hætta að fela fjölda sjálfsvíga heldur horfast í augu við töluna og ræða verndandi þætti geðheilsu.“

Grímur segir að hætt sé við að margir 16-19 ára nemendur flosni upp úr námi vegna faraldursins. Brottfallið sé mjög dýrt samfélaginu og slæmt fyrir þau sem hætta námi. Unga fólkið fái hvergi vinnu, enda mikið atvinnuleysi, og það komist lítið áfram vegna skorts á menntun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert