„Það er ótrúlega sárt að lesa þetta“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að fregnir af lélegum aðbúnaði og vanrækslu á vistheimilinu Arnarholti á Kjalarnesi „nísti í hjartað“. Hann segir að málið verði án efa tekið fyrir í borgarstjórn. 

RÚV greindi í kvöld frá því að veikt fólk sem dvaldi á Arn­ar­holti á Kjal­ar­nesi til árs­ins 1971 hafi verið sett í ein­angr­un í litl­um fanga­klefa vik­um sam­an eft­ir því sem fram kem­ur í tæp­lega 50 ára göml­um vitna­leiðslum yfir starfs­fólki. 

Arn­ar­holt var fyrst opnað árið 1945 og var rekið af Reykja­vík­ur­borg til 1. sept­em­ber 1971. Í vitna­leiðslum yfir starfs­mönn­un­um 24 er því meðal ann­ars lýst hvernig vist­mönn­um var refsað með því að vera neitað um mat. Þá virðist þeim einnig hafa verið refsað með því að vera læst­ir úti hvernig sem viðraði. Al­geng­ast virðist hafa verið að heim­il­is­mönn­um væri refsað með því að vera sett­ir í stein­steypt­an ein­angr­un­ar­klefa með ein­um litl­um glugga sem búið var að setja járnrimla fyr­ir. 

Al­var­leg­ustu at­vik­in sem greint var frá í vitna­leiðsl­un­um varða þó and­lát heim­il­is­manna sem virðast hafa verið nokkuð tíð á þess­um tíma og lýs­ir starfs­fólkið nokkr­um slík­um til­vik­um.

Verði án efa til umræðu í borgarstjórn 

Dagur segir í samtali við mbl.is að það hafi verið sársaukafullt að lesa lýsingar starfsmanna á aðbúnaði á Arnarholti. 

„Þó að það séu fimmtíu ár liðin þá nístir alveg í hjartað að lesa þessar lýsingar, bæði um aðbúnað og afdrif einstaklinga sem voru á Arnarholti samkvæmt þessum vitnaleiðslum,“ segir Dagur. 

Spurður hvort vitnaleiðslur starfsmannanna hafi áður komið inn á borð borgarstjórnar á síðustu árum segir Dagur svo ekki vera. 

„Við fórum vel yfir skýrslu vistheimilanefndar á sínum tíma, það var mjög mikilvægt starf sem laut að aðbúnaði barna. Úttektir af þessu tagi, þótt þær fari langt aftur í tímann, geta verið mikilvægur spegill fyrir samfélagið þó að það geti vissulega verið mjög sársaukafullt að horfast í augu við hluti sem viðgengust og áttu sér stað,“ segir Dagur. 

„Þetta minnir mann á að það þurfa allir að halda vöku sinni. Það getur vel verið að eitthvað í okkar samtími þyki sérstakt þegar það verður skoðað í baksýnisspegli framtíðarinnar. Við þurfum að vera vakandi fyrir aðbúnaði allra og að það sé komið fram við fólk af virðingu og í samræmi við mannréttindi,“ segir Dagur. 

Þá segir Dagur að málefni Arnarholts eigi án efa eftir að verða til umræðu innan borgarstjórnar. 

„Ég efast ekki um það að við munum fara yfir þessi mál og afla okkur upplýsinga um þau. Þetta er auðvitað nýkomið fram núna en við munum fara yfir þetta þó að það sé ekki komið á hreint hvernig það verður. Það er ótrúlega sárt að lesa þetta, þó að nokkuð sé um liðið,“ segir Dagur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert