Matvælastofnun er að vinna áætlun um skimun minka fyrir kórónuveirusmiti. Verður hafist handa við sjálfa skimunina einhvern næstu daga, að sögn Sigríðar Gísladóttur, sérgreinadýralæknis hjá Mast.
Ástæða skimunarinnar er stökkbreytt afbrigði kórónuveiru í minkum á búum í Danmörku sem leiddi til þess að öllum minkum í landinu verður slátrað og gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að draga úr hættu á útbreiðslu á loðdýrasvæðum. Ekki er grunur um að smit hafi komið upp á minkabúum hérlendis.
Hér verða tekin sýni af minkum á öllum minkabúum landsins en þau eru alls níu. Sýnin verða tekin úr dýrum sem hafa verið aflífuð en pelsun er einmitt að hefjast um þessar mundir.
Sýnin verða greind á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum. Notuð verður svokölluð PCR-greining, sú sama og notuð er við greiningu smits hjá fólki.