„Þeir aðilar sem höfðu íhugað að koma með fjármagn inn í borgina fengu þarna mjög neikvæð skilaboð. Borgin ætti að vera að leita að tækifærum, en ekki skella á þegar síminn hringir,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, spurður um viðbrögð Kristínar Soffíu Jónsdóttur, stjórnarformanns Faxaflóahafna og borgarfulltrúa Samfylkingar, við áformum um hóteluppbyggingu á Miðbakkanum í Reykjavík.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að malasíski kaupsýslumaðurinn Tan Sri Vincent Tan hefði tryggt sér 40 milljarða króna fjármögnun til að hefjast handa við uppbyggingu fimm stjörnu lúxushótels á svæðinu. Lóðin á Miðbakkanum er þó ekki eingöngu í eigu Tans heldur einnig í eigu hafnarinnar.
Aðspurður segir Eyþór að viðbrögð borgarinnar við hugmyndinni hafi lýst vanstillingu. Þá sé undarlegt að reyna ekki að vinna málið áfram. „Það á að taka stórum hugmyndum vel og taka samtalið við þá sem vilja koma með fjármagn á erfiðum tímum. Það er aldrei gott að senda fjárfestum tóninn, hvorki gagnvart þeim sjálfum né öðrum. Í framhaldinu er hægt að skoða útfærsluna,“ segir Eyþór sem kveðst jákvæður fyrir uppbyggingu á svæðinu.
„Ég held að það sé raunhæft að byggja á reitnum, en það er spurning hversu mikið og hvernig útfærslan er. Þetta er gríðarleg innspýting inn í kerfið sem er mikilvægt enda verður borgin ekki endurreist með skuldasöfnun. Borgin á að senda frá sér þau skilaboð að hún sé opin fyrir tækifærum.“