Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna, segir að stærsta einstaka hópsýkingin sem komið hefur upp til þessa tengist líkamsræktarstöð í Kópavogi en rúmlega 400 smit eru tengd henni. Þá má rekja tæplega 300 smit til skemmtistaða í miðborginni í upphafi bylgjunnar. Þriðja stærsta hópsýkingin eru smit sem rekja má til Landakotsspítala og eru þau tæplega 200.
Þá segir hann ekkert gefa til kynna að lífseig flökkusaga tengd smitum og frönskum vændiskonum eigi við rök að styðjast.
„Við náðum tiltölulega fljótt utan um þennan hóp sem var á Landakoti á meðan þeir sem voru í líkamsræktarstöðinni voru tiltölulega ungt og félagslega virkt fólk. Þannig spretta frá því fleiri hópsýkingar t.a.m. inni í skólum og vinnustöðum,“ segir Jóhann en umrædd líkamsræktarstöð er hnefaleikastöð í Kópavogi.
Spurður hvort ekki sé áfall að svo stór hópsýking sé tengd heilbrigðisstofnun á borð við Landakotsspítala gefur Jóhann lítið út á það. „Ég held bara að mikilvægt sé að halda því til haga að þar sem fólk kemur saman getur komið upp hópsmit. Þetta getur verið hvar sem er,“ segir Jóhann.
Lífseig flökkusaga hefur gengið um að í upphafi þriðju bylgjunnar hafi franskar vændiskonur borið veiruna hingað til lands. Jóhann segir ekkert til í því þótt hann kannist við söguna, sem berist honum reglulega til eyrna. „Við erum að rekja meirihluta smita og erum með mjög hátt hlutfall þegar kemur að því að ná utan um smitin. Ef þetta væri tilfellið ættu karlmenn að dúkka upp hingað og þangað sem ekki tengjast neinum öðrum hópum, en svo er ekki,“ segir Jóhann.
„Þetta er bara einhver þvættingur,“ segir Jóhann.