Fá smit á Íslandi í evrópskum samanburði

Sóttvarnastofnun Evrópu

Ísland er í góðum málum hvað varðar fjölda kórónuveirusmita ef horft er til annarra ríkja í Evrópu. Af 31 ríki eru smitin hlutfallslega færri en á Íslandi í 4 ríkjum Evrópu samkvæmt uppfærðum lista á vef Sóttvarnastofnunar Evrópu. 

Aftur á móti er hlutfall látinna hærra hér en annars staðar á Norðurlöndunum síðustu tvær vikurnar.

Sóttvarnastofnun Evrópu segir að á Íslandi séu smitin 151,3 á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga og andlátin 3,6 á sama tímabili. Á vefnum covid.is er talan enn betri hvað varðar fjölda smita því þar segir að 106,6 smit hafi verið skráð inn­an­lands síðustu tvær vik­urn­ar á hverja 100 þúsund íbúa en 10,6 á landa­mær­un­um á sama tíma­bili. 

Alls hafa 25 látist af völdum Covid-19 á Íslandi. Þar af eru 15 í þriðju bylgju faraldursins og eru flest dauðsföllin rakin til hópsmits á Landakoti. Tekið skal fram að andlátin eru miklu færri á Íslandi en í þeim ríkjum þar sem smitin eru fleiri í Evrópu. 

14 daga nýgengi á 100.000 íbúa

  1. Tékkland 1359,5 – 26,1 andlát
  2. Lúxemborg 1359 – 7,5 andlát
  3. Belgía 1185 – 21,4 andlát
  4. Liechtenstein 1104,8 – 7,8 andlát
  5. Slóvenía 1014,7 – 10,5 andlát
  6. Frakkland 941,6 – 9,9 andlát
  7. Austurríki 838,8 – 4,7 andlát
  8. Pólland 825,2 – 9,9 andlát
  9. Króatía 775,8 – 9,7 andlát
  10. Ítalía 713,5 – 7,7 andlát.

Ef horft er sérstaklega til Norðurlandanna þá eru smitin flest í Svíþjóð eða 452,8 á hverja 100 þúsund íbúa. Þar eru skráð andlát á hverja 100 þúsund íbúa 0,9. Í Danmörku eru smitin 254,9 en andlátin 0,7. Á Íslandi eru smitin 151,3 en andlátin 3,6, í Noregi er 131 smit á hverja 100 þúsund íbúa en andlátin 0,1 á hverja 100 þúsund og í Finnlandi eru skráð 53,4 smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur en 0,2 andlát. 

Finnar eru með fæst smit á hverja 100 þúsund íbúa meðal ríkja ESB og EES og Norðmenn næst á eftir. Síðan eru skráð 144,2 smit í Eistlandi á hverja 100 þúsund íbúa en þar er hlutfall látinna 0,2 og 145,2 á Írlandi en hlutfall látinna 1,5. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert