Nokkurrar óánægju gætir meðal íbúa á norðanverðum Vestfjörðum yfir strjálum flugferðum Air Iceland Connect til og frá Ísafirði. Þegar best lét fyrir nokkrum árum var félagið garnan með tvær ferðir á dag á Ísafjarðarleiðinni, það er að morgni og síðdegis.
Vegna minni eftirspurnar hefur félagið fækkað ferðum og í líðandi viku eru þær aðeins fjórar; það er sunnudag, mánudag, miðvikudag og föstudag. „Auðvitað vildum við ekkert frekar en vera með stöðugar ferðir hér á milli, en veruleikinn býður ekki upp á slíkt,“ segir Þorlákur Ragnarsson, stöðvarstjóri flugfélagsins á Ísafirði.
„Ferðaþjónustan er alveg í ládeyðu, atvinnulífið í hægagangi og fólk er hvatt til þess að ferðast helst ekki milli landshluta. Auðvitað sér þessa stað í farþegatölum. Hingað vestur er flogið á Bombardier Q200-vélum sem taka 37 farþega og síðustu vikurnar hefur sætanýtingin verið mjög lítil. Af sjálfu sér leiðir þá að við fækkum ferðum, þó líka sé horft til samfélagslegrar ábyrgðar með því að halda uppi lágmarksþjónustu. Kjarni málsins er sá að flugið á þessari leið nýtur ekki ríkisstyrkja og reksturinn verður að bera sig,“ segir Þorlákur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.