„Glórulaust og fordæmalaust“ hjá ríkisstofnun

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands
Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður flugvirkjafélags Íslands, segir Landhelgisgæsluna brjóta lög um vinnudeilur með því að láta hluta flugvirkja félagsins starfa áfram þrátt fyrir verkfall. Þá séu þeir sem áfram starfi látnir ganga í störf þeirra sem séu í verkfalli.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að af 18 flugvirkjum sem starfa hjá gæslunni séu aðeins sex í verkfalli. Af þeim eru átta sem eru svokallaðir spilmenn og ganga þeir útkallsvaktir á þyrlu gæslunnar. Guðmundur segir að enginn ágreiningur sé uppi um að þeir aðilar séu ekki í verkfalli þar sem þeir séu viðbragðsaðilar og því gildi um þá lög sem viðbragðsaðila.

Hann segir hins vegar ágreining uppi um hversu vítt gæslan túlki hlutverk þessara átta starfsmanna. „Gæslan er að gera tilkall til þess að þessir menn, sem eiga bara að vera viðbragðsaðilar, gangi í störf flugvirkja. Það gengur ekki upp frá okkar bæjardyrum sé,“ segir Guðmundur.

Spilmennirnir eru á útkallsvakt í eina viku og svo í vaktafríi í viku á móti. Þangað til kemur að næstu spilvakt gegna þeir almennu starfi flugvirkja að sögn Guðmundar. Hann segir Landhelgisgæsluna hins vegar horfa svo á að starfsmennirnir séu spilmenn allan tímann og að verkfallið eigi ekki við þá utan þess tíma sem þeir eru á sérstökum spilvöktum. Þessu sé Flugvirkjafélagið ósammála.

Til viðbótar við spilmennina eru einnig fjórir starfsmenn sem gæslan flokkar sem yfirmenn og að verkfallið nái því ekki til þeirra. Guðmundur segir að Flugvirkjafélagið sjái það ekki sömu augum. Þannig starfi viðkomandi aðilar sem flugvirkjar, þó þeir leiðir ákveðnar deildir eða séu vinnandi verkstjórar. Segir hann af og frá að reynt sé að færa rök fyrir því að verkfallið eigi ekki við um þá.  „Það gengur ekki upp að þessir yfirmenn gangi í störf undirmanna sinna.“

Vegna þessara tveggja atriða segir Guðmundur að félagið skoði nú mjög alvarlega að stefna ríkinu. „Það er glórulaust og fordæmalaust að ríkisstofnun sé að brjóta á stéttarfélagi í vinnudeilu,“ segir hann.

Spurður hvort þessi staða hafi áhrif á samningaviðræðurnar segir hann svo að sjálfsögðu vera og að þessi afstaða gæslunnar komi niður á samningaviljanum auk þess sem áhrif verkfallsins verði ekki jafn þung og áformað hafi verið.

Guðmundur segir að bitbeinið í viðræðum flugvirkja og ríkisins núna sé ekki launaliður, heldur hafi flugvirkjar gæslunnar alltaf verið með tengingu í aðalkjarasamning flugvirkja þar sem meðal annars séu ákvæði um hvíldartíma, ferðapeninga og annað sem hafi verið samið um í gegnum tíðina vegna þess hvernig starfið væri byggt upp og hver starfsvettvangurinn væri.

Segir Guðmundur að eftir um 8 mánaða viðræður hafi samninganefnd ríkisins allt í einu viljað afnema þessa tengingu og notast við staðlaðan ríkissamning. Guðmundur segir slíkt hins vegar ekki ganga þar sem slíkur samningur sé staðlaður út frá hefðbundinni skrifstofuvinnu en ekki störfum þar sem starfsmenn gangi bakvaktir og séu í viðbragðsstöðu, eða fari í verkefni erlendis í flóknu starfsumhverfi. „Þarna er verið að kippa fótunum undan flugvirkjum,“ segir hann um tillögur samninganefndar ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert