Kynlífstækjaverslun verður leikskóli

Borgarráð samþykkti á fundi sínum að kaupa húsnæði verslunarinnar Adam …
Borgarráð samþykkti á fundi sínum að kaupa húsnæði verslunarinnar Adam og Evu. mbl.is/Eggert

Borgarráð hefur samþykkt á fundi sínum að kaupa húsnæði kynlífstækjabúðarinnar Adam og Evu á Kleppsvegi. Til stendur að breyta húsnæðinu í leikskóla. Þetta kemur fram í Twitter færslu frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. 

„Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að kaupa hús. Ekki svo óalgengt en ég man ekki til þess að við höfum áður keypt hjálpartækjaverslun. Húsnæði Adams og Evu er nú okkar!“ segir Dagur í færslu sinni 

„Reyndar keyptum við húsnæði arkitektastofunnar við hliðina líka. Planið er andlitslyfting þessa gamla hverfiskjarna við Kleppsveg og innrétting nýs 120 barna leikskóla - fyrir Laugardal og hina nýju Vogabyggð. Sannarlega margar flugur í einu höggi!,“ segir Dagur ennfremur. 

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert