Lömb komu sérlega væn af fjalli og til slátrunar í haust. Fallþungi var að meðaltali 16,89 kíló sem er 370 grömmum meira en á síðasta ári og meiri fallþungi en áður hefur sést.
Sláturtíð sauðfjár lauk víðast hvar fyrir mánaðamót en í lok síðustu viku hjá því húsi sem slátraði lengst. Einar Kári Magnússon, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun, segir að blessunarlega hafi hvergi orðið röskun vegna kórónuveirufaraldursins þótt vissulega hafi takmarkanir vegna veirunnar sett mark sitt á sláturtíðina. Einar segir að sláturleyfishafar hafi gætt sín vel með sóttvarnir. Þannig var engum utanaðkomandi hleypt inn í sláturhúsin, ekki einu sinni bændum til að framvísa eigin fé.
Slátrað var tæplega 486 þúsund lömbum sem er rúmlega 21 þúsund lömbum færra en árið áður. Er sláturlömbum því að fækka enn eitt árið. Ef litið er þrjú ár aftur í tímann, til ársins 2017, sést að fækkað hefur um 75 þúsund lömb.
Minni slátrun leiddi í haust ekki til jafn mikils samdráttar í kjötframleiðslu og búast hefði mátt við vegna þess að lömbin voru mun þyngri að meðaltali. Samdrátturinn nam þó liðlega 160 tonnum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.