Ríkisstjórnarflokkarnir ræða nú sín í millum nýjar leiðir til þess að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðla, en sem kunnugt er hefur reynst erfitt að þoka frumvarpi menningarmálaráðherra um fjölmiðlastyrki í gegnum þingið.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er helst horft til þeirrar lausnar, að í stað beinna styrkja til einkarekinna fjölmiðla verði skattkerfið notað til þess að skjóta styrkari stoðum undir rekstrarumhverfi fjölmiðlanna í svipuðum mæli og í fyrra frumvarpi.
Þingmenn, sem Morgunblaðið ræddi við í gær, vörðust flestir allra frétta, enda viðræður milli fulltrúa stjórnarflokkanna á viðkvæmu stigi. Þeir voru þó nokkuð bjartsýnir á að með þessu móti mætti ná þeirri samstöðu stjórnarflokkanna um málið, sem skort hefði til þessa, en hugmyndir um styrkjakerfi hafa staðið mjög í þingflokki sjálfstæðismanna, svo mjög að útilokað var að málið hlyti afgreiðslu.
Með þessu móti væri hins vegar um skattkerfisaðgerð að ræða, sem ekki kallaði á sams konar íhlutun og eftirlit hins opinbera með fjölmiðlum og styrkjakerfið gerði ráð fyrir. Um leið myndu umsvif eða eðli fjölmiðla ekki skipta máli, þeir nytu breytingarinnar allir jafnt, stórir miðlar sem smáir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.