Óhjákvæmilegt að halda staðpróf

Um fjórðungi námskeiða á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands lýkur með staðprófi.
Um fjórðungi námskeiða á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands lýkur með staðprófi. mbl.is/Sigurður Bogi

Námsmati í um fjórðungi allra námskeiða á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands lýkur með staðbundnum prófum í desember.

Ástæða þess að ekki er allt námsmat í formi heimaprófa er að Háskólinn getur ekki ábyrgst „gæði námsmats og tryggt hæfnisviðmið á þann hátt,“ að því er segir í yfirlýsingu frá Ingu Þórsdóttur, forsta heilbrigðisvísindasviðs, sem send var fjölmiðlum í dag. Háskólinn geti ekki veitt trygga menntun að baki löggildingu starfa og starfsréttinda öðruvísi.

Nokkurrar óánægju hefur gætt meðal stúdenta við Háskólann vegna fjölda staðprófa á heilbrigðisvísindasviði, en þau verða alls 72 samanborið við aðeins tvö á hugvísindasviði. Í yfirlýsingu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands sem birt var í gær segir að ekki sé „boðlegt að neyða nemendur til að taka staðpróf og bjóða ekki upp á aðrar lausnir“.

Þá lýsir ráðið vonbrigðum með að nemendum verði ekki boðið að ljúka áföngum með „staðið/fallið“ — þ.e. án einkunnar, líkt og boðið var upp á í vor.

Allt í samræmi við reglur

Í yfirlýsingu heilbrigðisvísindasviðs segir að allt prófahald í Háskólanum verði í samræmi við reglugerð um sóttvarnir. Samkvæmt henni er heimilt að halda „samkeppnispróf, þýðingarmikil lokapróf og staðbundnar námslotur“ fyrir allt að 30 manns í vel loftræstum rýmum. 

Háskólinn leggi sig allan fram um að veita nemendum nákvæmar leiðbeiningar um sóttvarnir sem gilda í prófinu, þ.e. að tveir metrar verði á milli einstaklinga og grímunoktun sé skylda fyrir og eftir próf.

Nemendur sem búa með eða umgangast aðra í áhættuhópi er bent á að hafa samband við prófstjóra á netfangið profstjori@hi.is ekki síðar en fimm dögum fyrir settan prófdag og fundin verður lausn á því hvernig hægt er að skipuleggja prófið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert