„Þetta heimili hefði aldrei átt að vera til“

Arnarholt á Kjalarnesi var starfrækt til ársins 2005.
Arnarholt á Kjalarnesi var starfrækt til ársins 2005. mbl.is/Árni Sæberg

Dóttir sjúklings sem lagður var inn á vistheimilið Arnarholt árið 1994 segir að aðkoman þar hafi verið hræðileg. Faðir hennar hafi verið lokaður inni í heilan dag og matur hafi verið af skornum skammti. Árið 1994 var rekstur Arnarholts kominn undir Borgarspítalann fyrir um tuttugu árum síðan, eða eftir að borgarstjórn Reykjavíkur óskaði þess árið 1971. 

Vitnaleiðslur starfsfólks Arnarholts sem Ríkisútvarpið greindi frá í vikunni fjölluðu um lélegan aðbúnað þar til ársins 1971. Borgarstjórn Reykjavíkur virðist hafa staðið í trú um að með því að reksturinn yrði færður undir Borgarspítalann myndi aðbúnaðurinn batna. Miðað við frásögn dótturinnar virðist aðbúnaður í það minnsta einnig hafa verið áfram afar lélegur eftir að starfsemin var færð til Borgarspítalans. 

„Þetta heimili hefði aldrei átt að vera til. Aðkoman þarna var hryllileg. Ég fæ alltaf hnút í magann þegar þessi staður er nefndur því þetta er ekki eðlilegt,“ segir dóttir mannsins sem vill ekki koma fram undir nafni. Hún furðar sig á því að vitnaleiðslurnar hafi ekki verið opinberaðar fyrr en nú. 

„Það má ekki þegja þetta apparat niður. Fólk verður að taka afleiðingum gjörða sinna,“ segir hún. 

Læstur inni allan daginn

Faðir konunnar fékk heilablæðingu á síðasta áratug síðustu aldar. Hann hafði þá starfað lengi sem lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli. Læknirinn hans og ættingi sem var lyfjafræðingur stungu upp á því að hann yrði sendur á Arnarholt. Það varð niðurstaðan en dóttirin segir að henni hafi ekki litist á það. 

„Ég var alveg í öngum mínum enda dálítið mikil pabbastelpa. Daginn eftir að hann var sendur þangað með leigubíl sagði ég við mömmu að við skyldum fara og heimsækja hann,“ segir konan.

Þegar þær mæðgur koma á Arnarholt sáu þær hvergi föðurinn en mættu önugum starfsmanni sem vísaði þeim á herbergi á annarri hæð. Þar hafði faðir konunnar, að hennar sögn verið læstur inni allan daginn. 

„Hann var búinn að skila af sér í buxurnar og hann var svangur. Ég varð auðvitað bara spólandi brjáluð og sagði þeim að þau væru ekki starfi sínu vaxin. Ég bað þau um að gjöra svo vel og þrífa hann og koma honum í hrein föt. Það var gert með herkjum,“ segir dóttir mannsins.

„Hvað skeði eftir að við fórum með hann þaðan?“

Hún fór með honum í göngutúr og svo var komið að kvöldmat. 

„Þá var þetta skyrhræringur einhver, smá á hverjum disk og þurrt brauð. Pabbi var náttúrulega vel í holdum, hann var lögga uppi á velli og þeir fóru alltaf í Messann að borða. Ég spyr hvort hann geti ekki fengið meira. Þá var mér sagt að hver vistmaður fengi svona skammt. „Vistmaður?“, sagði ég, „Hann er sjúklingur, hann fékk heilablæðingu. Þegar ég kem á morgun á hann að vera hreinn, opið inn í herbergi hjá honum og allt í orden, annars kæri ég ykkur,“ segir konan. Daginn eftir ákváðu þær mæðgur að sækja föður hennar enda hafði þeim ofboðið aðkoman. Þá var hann færður á hjúkrunarheimili þar til hann gat snúið aftur heim til konu sinnar.

Hún kallar eftir því að úttekt verði gerð starfsemi allra vistheimila sem hafi verið starfrækt hér á landi. 

„Ég hugsa að hún móðir mín hefði bara dáið af sorg ef hann hefði þurft að vera þarna lengur. Hvað skeði eftir að við fórum með hann þaðan? Það var enn þá fólk þarna. Það á ekki að koma svona fram við fólk, mér er alveg sama hvort þú sért sagður geðveikur, eiturlyfjaneytandi eða með heilablæðingu, þú kemur ekki svona fram við fólk. Þú kemur fram við fólk eins og þú ætlast til þess að fólk komi fram við þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert