Tíðni sjálfsvíga svipuð og á seinustu árum

Embætti landlæknis hefur gefið út bráðabirgðatölur um sjálfsvíg á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar kemur fram að 18 sjálfsvíg voru skráð á dánarmeinaskrá embættisins eða 4,9 á hverja 100 þúsund íbúa.

„Þessar tölur samræmast tölum fyrri ára en meðalfjöldi sjálfsvíga fyrstu 6 mánuði áranna 2015-2019 var 18, eða 5,2 á hverja 100.000 íbúa. Ekki er heldur mikil breyting sé litið til tíu ára meðaltals áranna 2010-2019,“ segir í frétt á vefsíðu landlæknis.

Bent er á að vegna fámennis þjóðarinnar geti litlar breytingar á fjölda valdið nokkrum sveiflum í dánartíðni. „Talsvert miklar sveiflur þurfa að verða til þess að hægt sé að staðhæfa að um marktæka breytingu sé að ræða. Því er mikilvægt að túlka ekki nokkurra mánaða bráðabirgðatölur sem aukningu eða samdrátt á tíðni sjálfsvíga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert