Tillögur um Covid-aðgerðir á borði ráðherra

Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundi vegna hertra aðgerða 30. október sl.
Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundi vegna hertra aðgerða 30. október sl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir hefur lagt fram minnisblað þar sem hann fer yfir tillögur um áframhaldandi aðgerðir innanlands vegna Covid-19 sem taka gildi 18. nóvember næstkomandi. Minnisblaðið er nú til skoðunar hjá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem mun ræða það á ríkisstjórnarfundi á morgun. Hún býst við því að nýjar aðgerðir verði kynntar á morgun eða um helgina. 

„Ég býst við því að [minnisblaðið] verði tekið til umfjöllunar í ríkisstjórn á morgun og tilkynnt í kjölfarið,“ segir Svandís. 

Núverandi aðgerðir, sem t.a.m. fela í sér 10 manna samkomutakmörk, gilda til 17. nóvember. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áður sagt að fólk megi búast við töluverðum takmörkunum áfram þó einhverjum þeirra verði aflétt.  

Hvað varðar aðgerðir á landamærum hefur Þórólfur lagt til að tvöföld skimun verði skylda við komuna til landsins. Nú stendur fólki sem hingað kemur til boða að fara heldur í 14 daga sóttkví ef það kýs svo. Svandís segir að væntanlega yrði það rætt á fundi ríkisstjórnar en gefur ekki upp hvort hún telji líklegt að slíkt yrði samþykkt. 

Þórólfur hefur áður lagt til að tvöföld skimun verði skylda en íslensk stjórnvöld tóku þá ákvörðun um að bjóða upp á val um 14 daga sóttkví við komuna til landsins. 

Hefðbundin forgangsröðun í bólusetningu

Miðað við fréttir síðustu daga virðist þróun bóluefna við Covid-19 vera komin vel á veg og útlit fyrir að slíkt bóluefni verði jafnvel tilbúið á þessu ári. Eins og áður hefur komið fram verður líklega ekki nóg af bóluefni handa öllum til að byrja með. Spurð hvort íslensk stjórnvöld hafi nú þegar ákveðið hvaða hópar séu í forgangi hvað bólusetningu varðar segir Svandís: 

„Það eru til drög slíkri röðun og það yrði þá gefið út í reglugerð. Við höfum náttúrulega ákveðnar fyrirmyndir hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og sóttvarnastofnun Evrópu um það hvernig þetta er gert. Þetta er mjög hefðbundið, að byrja á því að hugsa um viðkvæma hópa, heilbrigðisstarfsfólk og framlínufólk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert