Verkfallið nær til 6 af 18 flugvirkjum Gæslunnar

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GRÓ.
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GRÓ. mbl.is/Árni Sæberg

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ, er enn útkallshæf þrátt fyrir að verkfall flugvirkja Gæslunnar hafi nú staðið í tæpa viku. Tekið hefur verið mið af stöðunni varðandi verkefni þyrlunnar og þá hafa útköll verið fá á tímabilinu. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir ljóst að með sama áframhaldi komi að þeim tímapunkti að það þurfi að stöðva þyrluna, en að hingað til hafi þau verið heppin.

Hjá Landhelgisgæslunni starfa í heild 18 flugvirkjar, þar af 13 í flugskýli. Verkfallið nær aðeins til hluta flugvirkjanna, eða sex einstaklinga sem starfa í flugskýli og viðhaldsskipulagningu. Það helgast af því að átta þeirra eru svokallaðir spilmenn og ganga vaktir í þyrluáhöfn auk þess verkfallið nær ekki til nokkurra yfirmanna.

Viðhaldsskipulagning liggur að fullu niðri

Þeir flugvirkjar sem ganga vaktir sem spilmenn og yfirmennirnir sinna því verkefnum sem koma upp varðandi viðhald þyrlunnar og smávægilegar bilanir. Þannig kom meðal annars upp minniháttar bilun í þyrlunni í lok síðustu viku og gátu spilmenn á vakt lagað þá bilun að sögn Ásgeirs.

Hins vegar liggur svokölluð viðhaldsskipulagning niðri vegna verkfallsins, en starfsmenn sem eru í verkfalli sinna þeim störfum. Er þar um að ræða skráningu verkefna og viðhalds til að hafa yfirsýn yfir viðhaldsstöðu loftfara. Ásgeir segir að þetta sé mikilvægur hluti viðhaldsvinnunnar og erfitt sé að hafa þennan hluta viðhaldsvinnunnar skertan lengi.

Kemur að þeim tímapunkti að þetta gangi ekki

Spurður hversu lengi Gæslan geti búið við núverandi ástand, með hluta flugvirkjanna í verkfalli, segir Ásgeir að það sé alveg ljóst að það komi að þeim tímapunkti að þetta gangi ekki upp og stöðva þurfi þyrluna, en tímalengdin fari eftir því hversu heppin Gæslan verði með bilanir og líka í hversu mörg útköll þurfi að fara. Þannig hafi aðeins verið farið í eitt útkall á undanfarinni viku og var það á sama tíma og þyrlusveitin var á leið til æfingar. Segir hann að óbreytt ástand gæti jafnvel varað fram yfir helgi eða lengur ef allt spilist með Gæslunni og engar óvæntar bilanir komi upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert