Hallur Már -
Allir nemendur og kennarar í Réttarholtsskóla tóku þátt í gleðigjörningi í morgun þegar hópurinn reif sig út í morgunsólina og dansaði á skólalóðinni við lagið Jerusalema, en það var spilað í hátölurum sem hafði verið komið fyrir á lóðinni.
Vikan hefur farið í skipulagningu en atriðið á að varpa ljósi á takmarkanirnar sem skólabörn landsins lifa við þessa dagana þar sem krakkarnir dönsuðu í hópum sem endurspegla sótthólfin sem mótar skólastarfið þessa dagana.
Með gjörningnum var markmiðið m.a. að hleypa gleði í umhverfi hafta og Covid-19, sýna að sóttvarnareglur útiloka ekki skemmtun, gera samtakamáttinn áþreifanlegan, kenna dans og hreyfingu og efla skólasamfélagið.
Sem betur fer voru veðurguðirnir með hópnum í liði og mbl.is var á staðnum og fylgdist með uppákomunni.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.