Ríkið þarf að endurgreiða þrotabúi 11 milljónir

Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms í málinu.
Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms í málinu. mbl.is/Hallur Már

Íslenska ríkið var í dag í Landsrétti dæmt til að endurgreiða þrotabúi heildsölunnar EK1923 tæplega 11 milljónir auk vaxta. Var þar með snúið við dómi héraðsdóms sem hafði sýknað ríkið.

Íslenska ríkið hafði átt að endurgreiða fyrirtækinu upphæðina vegna endurgreiðslu gjalds í tengslum við úthlutun tollkvóta árið 2015. Hins vegar skuldajafnaði ríkið þessa kröfu við eigin skattkröfu á EK1923 vegna áætlaðrar staðgreiðslu af launum og tryggingargjaldi í september til nóvember árið 2016, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun september það sama ár. Engin laun voru greidd þá mánuði.

Ríkisskattstjóri hafði áður látið málið niður falla þar sem skattframtali EK1923 hafði ekki verið skilað.

Landsréttur vísar í dómi sínum hins vegar til þess að endurgreiðslukrafan hefði stofnast á þeim degi sem gjaldið hefði verið ranglega innheimt og að krafa þrotabúsins hafi orðið til fyrir frestdag.  Aftur á móti hefði krafa ríkisins á hendur þrotabúsins stofnast eftir að það var tekið til gjaldþrotaskipta og ætti það því kröfu á búið. Hins vegar yrði ríkið að endurgreiða búinu fjármunina.

Auk þess að þurfa að endurgreiða kröfuna þarf ríkið að greiða tvær milljónir í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.

Fjölmörg dómsmál hafa átt sér stað í kringum uppgjör EK1923, en þau hafa flest verið einkamál. Tengdist eitt þeirra þó einnig tollkvótum, en það var vegna framsals kröfu EK1923 á hendur ríkinu vegna tollkvótans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka