Sýn hf. hefur sent fjárlaganefnd Alþingis andsvar við umsögn Ríkisútvarpsins við fjárlagafrumvarpið og gerir athugasemdir við málatilbúnað RÚV.
Gagnrýnir fyrirtækið að svo virðist sem RÚV, sem sé í beinni samkeppni við Sýn, telji sig einn fjölmiðla hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna veirufaraldursins og kalli eftir beinum fjárframlögum.
Bendir fyrirtækið á að fjölmiðlar Sýnar, Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, haldi úti öflugri fréttaþjónustu í sjónvarpi, útvarpi og á vefnum og færð eru rök fyrir því að Sýn reki nú þegar fjölmiðil í almannaþágu. Ekkert sé því til fyrirstöðu að ríkið tilefni Sýn með almannaþjónustuhlutverk. Ef niðurstaðan verði sú að auka ríkisstuðning til fjölmiðils sem rekinn er í almannaþágu geti sú fjárveiting allt eins runnið til fjölmiðla sem reknir eru af Sýn hf.