Víkurskarði var lokað á fimmta tímanum í nótt vegna vörubíls sem þverar veginn. Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Norðurlandi eystra er bíllinn að flytja stórt hús norður í Bárðardal og hefur flutningurinn tekið á annan sólarhring.
Verið er að flytja húsið að sunnan og er um stórt hús að ræða þannig að það er gert í lögreglufylgd. Mikið rigndi seint í gærkvöldi á þessum slóðum og síðan frysti þannig að það myndaðist fljúgandi hálka í Víkurskarðinu.
Vegurinn verður sandaður með morgninum þannig að hægt verði að halda flutningnum áfram að sögn varðstjóra.