Dagur B. Eggertsson borgarstjóri felldi Oslóartréð á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk í dag. Vegna aðstæðna í samfélaginu var ekki haldin samnorræn jólastund eins og venjan hefur verið síðastliðin ár.
Dagur klæddist viðeigandi öryggisbúnaði og naut liðsinnis starfsmanns Skógræktarfélags Reykjavíkur við verkið.
Um er að ræða sitkagrenitré sem verður sett upp á Austurvelli og jólaljósin tendruð á trénu hinn 29. nóvember.
Jólatréð sem Reykjavík færir Þórshafnarbúum var fellt í Heiðmörk á mánudaginn og er nú komið í skip Eimskipa á leið til Færeyja. Um er að ræða 11 metra hátt sitkagrenitré sem verður reist á Tinghúsvöllinum, torgi í miðborg Þórshafnar, og tendrað verður á jólaljósunum á trénu þar laugardaginn 28. nóvember.