Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík gerir ekki athugasemd við það að efstu hæðum hins sögufræga húss Rúgbrauðsgerðarinnar í Borgartúni 6 verði breytt úr skrifstofum í íbúðir.
Það var Richard Ólafur Briem hjá VA arkitektum sem lagði fram fyrirspurnina fyrir hönd eiganda. Einnig voru í fyrirspurninni lagðar fram tillögur að annars vegar fjórum íbúðum á efstu hæð og hins vegar sex íbúðum.
Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og var svo lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa. Var sú umsögn samþykkt, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í henni kemur fram að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur sé Borgartún 6 á miðborgarsvæði M1b. Samkvæmt skipulaginu eru íbúðir heimilar, einkum á efri hæðum húsnæðis. Skipulagsfulltrúinn bendir enn fremur á að til að íbúðir verði samþykktar á hæðinni þurfi þó að uppfylla allar kröfur til íbúðarhúsnæðis.