„Sveiflan á hæð Skorradalsvatns er slík að landspjöll hljótast af. Frá hausti til vors getur þetta munað einum og hálfum metra. Á veturna þegar íshrannir rekur á land hér við norðurbakka vatnsins eru þær beittar eins og rakvélarblöð og brjóta landið,“ segir Pétur Davíðsson, bóndi á Grund í Skorradal.
Bændur þar í sveit fara þess nú á leit við Orku náttúrunnar að fyrirtækið gæti hófs við miðlun til Andakílsárvirkjunar úr Skorradalsvatni. Fundir eru haldnir og lausna er leitað.
Mál þetta á sér langa sögu, eða allt aftur til þess tíma að Andakílsárvirkjun var reist á árunum 1946-47. Þá var útbúin stífla við ós vatnsins, allt að 80 sentimetra há, án samráðs við landeigendur og gerður afrennslisskurður með lokunarbúnaði. Árið 1955 kom svo beiðni til atvinnumálaráðuneytisins um að fá að hækka vatnsborð um 1,5-2 metra til viðbótar. Hreppsnefnd valdi árið eftir í nefnd til viðræðna við ráðuneytið. Aldrei var þó haft samband við nefndina frá ráðuneytinu sem ákvað einhliða að heimila stjórn Andakílsárvirkjunar að hækka vatnsborð um 50 cm frá 15. september að hausti og 15. maí að vori. Sá fyrirvari var gerður að ef í ljós kæmi að hækkunin ylli verulegum landspjöllum, að dómi ráðuneytisins, yrði heimildin felld niður, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.