Jóhann Ólafsson
„Það er eiginlega ekkert hægt að segja,“ segir Björn Leifsson, eigandi World Class í samtali við mbl.is en ljóst er að ekki verður hægt að opna líkamsræktarstöðvar fyrr en 2. desember í fyrsta lagi vegna áframhaldandi sóttvarnaráðstafana. Björn segir að tekjufall vegna lokana tengdra kórónuveirunni nemi rúmum milljarði.
Kollegi Björns, Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins, sagði við mbl.is í gær að hnefaleikafélag í Kópavogi, þar sem hópsmit kom upp í haust, sé ekki líkamsræktarstöð eins og sóttvarnayfirvöld hafi talað um.
„Það er hallærislegt að það skuli alltaf kallað líkamsrækt því þetta er íþróttaklúbbur,“ segir Björn og bendir á að um sé að ræða fyrirtæki innan ÍSÍ. Í umræddum klúbbi berjist fólk á gólfinu sem auki líkur á smiti.
Ríkisstjórnin kynnti lokunarstyrki fyrir skömmu. Björn segist ekkert hafa séð af þeim enn en vonast til þess geta nýtt þá eitthvað. „Hingað hefur ekkert komið enn, hvorki í fyrstu bylgjunni né núna,“ segir Björn, sem tapar, eins og gefur að skilja, miklu á lokunum.
„Við getum orðað þetta þannig að við höfum orðið fyrir tekjufalli fyrir meira en milljarð og það mun bara aukast.“
Björn segir þó að það skipti ekki máli hverju hann tapi. Málið snúist um að starfsfólkið og kúnnarnir fái aðstöðu sem þeir þurfi á að halda.
Ertu bjartsýnn á að það verði hægt að opna aftur í desember?
„Ég ætla rétt að vona það, allra vegna.“