Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu samgöngustjóra og borgarhönnunar um að átak verði gert í úrbótum á strætóstoppistöðvum í borginni.
Ítarleg úttekt á ástandi og aðgengi fyrir alla á stoppistöðvum Strætó í Reykjavík, unnin af umhverfis-og skipulagssviði í samráði við ÖBÍ sumarið 2020, liggur nú fyrir. Sýnir hún að í langflestum tilvikum er ástandið ekki gott.
Í úttektinni voru skoðaðar 556 stoppistöðvar strætisvagna. Tvennt var metið, aðgengi og yfirborð stoppistöðvanna. Aðgengi var metið mjög gott og gott í einungis fjórum tilvikum og yfirborð mjög gott og gott í 11 tilvikum. Aðgengi var metið slæmt og mjög slæmt í í 514 tilvikum og yfirborð slæmt og mjög slæmt í 525 tilvikum.