Covid-ástandið hentar ágætlega

Arnaldur Indriðason hefur sent frá sér 24 bækur á jafnmörgum …
Arnaldur Indriðason hefur sent frá sér 24 bækur á jafnmörgum árum. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað sem líður hörmungum og hremmingum sem ganga yfir þjóðfélagið geta landsmenn gengið að því vísu að 1. nóvember ár hvert kemur út ný bók eftir Arnald Indriðason. Þannig hefur það verið síðustu 24 ár og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstunni að sögn rithöfundarins.

Nýjasta bók Arnaldar kallast Þagnarmúr og í aðalhlutverki þar er lögreglumaðurinn Konráð sem kominn er á eftirlaun. Eins og í mörgum bókum sínum á seinni árum horfir Arnaldur nokkuð til fortíðar í þessari sögu og tekst honum einkar vel að teikna upp sögusviðið á ljóslifandi hátt. Að þessu sinni flakkar sagan milli nútíðar og fortíðar. Þegar gengið er á höfundinn kemur í ljós að hörmungar kórónuveirunnar eru þó enn nokkuð fjarri skrifum hans.

Enn þá að kynnast Konráði

Þú hefur stundum tekið ýmis samfélagsmál inn í sögur þínar. Má vænta þess að næsta bók þín litist að einhverju leyti af áhrifum kórónuveirunnar á íslenskt samfélag?

„Nei, ekki að sinni. Næstu bækur um Konráð, þær gætu orðið þrjár í viðbót, ná ekki lengra en til áranna 2018 og 2019 eða þar um bil þannig að ég þarf að bíða aðeins með að fjalla um þessa ótrúlegu og erfiðu og leiðinlegu tíma,“ segir Arnaldur.

Bækur Arnaldar Indriðasonar hafa selst í yfir 500 þúsund eintökum …
Bækur Arnaldar Indriðasonar hafa selst í yfir 500 þúsund eintökum hér á landi og yfir 15 milljónum eintaka um heim allan. mbl.is/Árni Sæberg

Þagnarmúr er fjórða bókin um fyrrverandi lögreglumanninn Konráð auk þess sem hann kom við sögu í einni bók áður. Eftir því sem lesandinn kynnist honum betur verður Konráð einhvern veginn sífellt minna geðslegur. Um leið vekur saga hans og gerðir forvitni og lesandinn kann að hafa samúð með sumu því sem hann gerir. Arnaldur er spurður hvort þetta sé allt með ráðum gert eða hvort hann móti persónuna betur með hverri bók.

„Hugmyndin var að búa til lögreglumann sem væri ekki allur þar sem hann er séður. Gallagrip sem elst upp við mjög erfiðar aðstæður og á af þeim sökum ef til vill svolítið bágt með að vera stálheiðarlegur eins og krafan er að lögreglumenn séu. Eins og prestar hreinlega. Konráð er það ekki og mér fannst eitthvað varið í að hafa hann ólíkan Erlendi að því leytinu,“ segir Arnaldur og vísar til lögreglumannsins sem var aðalpersónan í mörgum af þekktustu bókum hans. Ekkert hefur spurst til Erlendar hin síðari ár og óvíst er hvort hann er lífs eða liðinn.

„Síðan auðvitað gerist það að lesendur fá að kynnast Konráði betur með hverri bók og afstaðan til hans getur verið ólík frá einni bók til annarrar,“ bætir höfundurinn við.

Sagan ekki fullmótuð í upphafi

Þegar þú byrjar að segja frá Konráði og forsögu hans, liggur þá allt sögusviðið fyrir? Í Þagnarmúr spyr maður sig til að mynda hvort tenging persóna í aðalplotti sögunnar (líksins í veggnum) og föður Konráðs sé löngu ráðin eða hvort þú hlaðir bara svona utan á þetta í rólegheitunum? Þá gæti maður líka spurt sig hvort nóg sé eftir eða hvort Konráð fari brátt að leysa gátuna um lát föður síns...?

„Mér finnst best að skrifa hverja bók þannig að ég viti ekki fyrirfram alla söguna. Einhver sagði: ef ég vissi hvert ég væri að fara, þá færi ég ekki þangað. Það er ágæt regla fyrir mig.

Þagnarmúr er eiginlega framhald Stúlkunnar hjá brúnni og ég mun halda áfram með þann þráð í næstu Konráðsbók. Sú saga sem ég segi í þessari bókaröð er ekki fullmótuð þegar ég legg af stað. Hún skýrist æ betur fyrir mér eftir því sem henni vindur fram og þá á ég við sögu Konráðs. Bækurnar eru þó samdar þannig að þær geta staðið sem sjálfstæð ritverk.

Ráðgátan um morðið á föður Konráðs verður leyst á endanum. Það tekur tíma að vinda ofan af því.“

Covid-ástandið hefur áhrif

Arnaldur sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir tveimur árum að hann hefði markvisst dregið úr ferðalögum til að kynna bækur sínar og að sér þætti gott að geta dregið sig í hlé. Nú er ástandið í heiminum þannig að fólk á þess varla kost að ferðast og raunar er fólki helst uppálagt að vera heima hjá sér.

Hentar þetta Covid-ástand þér ekki ágætlega? Þurftirðu að aflýsa mörgum heimsóknum á bókahátíðir úti í heimi?

„Já, það er í frosti eins og annað. En ástandið hentar rithöfundum ágætlega. Þeir hafa það best í einangrun. Það er eðlilegt ástand í lífi þeirra sem vinna við að skrifa eina bók á hverju ári. Hins vegar hefur þetta Covid-ástand áhrif á mann eins og aðra í samfélaginu og maður vonar auðvitað að þessum bylgjum fari að linna.“

Spilaði golf á Skagaströnd

Talandi um Covid-ástand. Þú hefur talað um ánægju þína af ferðalögum um Ísland. Í fyrrgreindu viðtali fyrir tveimur árum nefndirðu þetta einmitt en jafnframt að nær ófært væri orðið um landið fyrir fjölda ferðamanna. Náðirðu að sæta lagi í sumar þegar fátt var um erlenda ferðamenn? Eitthvað sem stóð upp úr?

„Við ferðuðumst eins mikið og við mögulega gátum og sáum að aðrir Íslendingar gerðu það einnig. Fórum vítt um land í frábæru veðri. Veit ekki hvort eitthvað eitt stendur upp úr. Golfið á Skagaströnd. Maturinn í Vestmannaeyjum. Það er hvergi betra að ferðast en á Íslandi á sumrin þegar sólin skín.“

Hlustar ekki á hljóðbækur

Talsvert hefur verið skrifað um erfiða stöðu bókarinnar. Bóksala virðist á niðurleið hér á landi en nú ber svo við að viðreisnar virðist von með hljóðbókinni. Hvernig líst þér á þá þróun að hljóðbækur njóti sífellt meiri vinsælda en prentuðu bækurnar sífellt minni? Hlustarðu sjálfur á hljóðbækur eða heldurðu þig við pappírinn?

„Ég held mig alfarið við pappírinn. Hljóðbókin er mjög áhugaverð viðbót. Mér skilst að þar sé að finna að mörgu leyti nýja neytendur á bækur, sem er gott.“

Kemur sjálfum sér enn á óvart

Á næsta ári verður liðinn aldarfjórðungur frá útgáfu fyrstu bókar þinnar. 25 ár. Það setur hlutina í samhengi. Ertu eitthvað farinn að huga að því að slaka á eða er alltaf jafn gaman að skrifa? Er yfirhöfuð gaman að skrifa eða er þetta bara orðið vani?

„Já, þetta er langur tími. Ég held áfram á meðan hugmyndirnar detta í kollinn á mér. Það getur aldrei orðið að vana að skrifa skáldsögur. Það er alltaf krefjandi og maður stendur frammi fyrir nýjum áskorunum í hvert sinn sem maður sest niður við skriftir.

Ég held áfram á meðan ég get komið sjálfum mér á óvart framan við tölvuna. Þá er gaman að vera rithöfundur.“

Gleðitíðindi að fá Rúnar

Arnaldur hefur ekki farið leynt með það að hann er dyggur stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Arsenal. Það hlýtur því að vera fagnaðarefni að Íslendingurinn Rúnar Alex Rúnarsson sé nú genginn til liðs við Skytturnar. Ekki var nú faðir hans alslæmur knattspyrnumaður á sinni tíð...
Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. Ljósmynd/arsenal.com

„Þvílík gleðitíðindi! Ég hef haldið með Arsenal síðan 1970 og Íslendingar hafa spilað með liðinu í gegnum tíðina og núna er röðin komin að Rúnari. Sá hann standa sig vel í Arsenalmarkinu í Evrópukeppninni um daginn og vænti þess að hann fái að spila meira. Faðir hans var auðvitað frábær knattspyrnumaður eins og allir vita,“ segir Arnaldur.

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert